132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[19:52]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Gengið er til dagskrár og tekið fyrir eina dagskrármálið, stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana sem verður útvarpað og sjónvarpað héðan úr Alþingishúsinu. Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir. Forsætisráðherra hefur 20 mínútur til framsögu en aðrir þingflokkar en þingflokkur forsætisráðherra hafa 12 mínútur í fyrstu umferð, í annarri umferð hafa þingflokkarnir 6 mínútur en í þeirri þriðju 5 mínútur hver þingflokkur. Röð flokkanna er í öllum umferðum þessi:

Framsóknarflokkur, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn.

Fyrir Framsóknarflokk tala Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra í fyrstu umferð, í annarri Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og í þriðju umferð Hjálmar Árnason, 6. þm. Suðurkjördæmis.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 9. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, 6. þm. Norðvesturkjördæmis, í annarri og Ágúst Ólafur Ágústsson, 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, í þriðju umferð.

Ræðumenn fyrir Sjálfstæðisflokk verða Geir H. Haarde utanríkisráðherra í fyrstu umferð, Ásta Möller, 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð og Halldór Blöndal, 2. þm. Norðausturkjördæmis, í þriðju umferð.

Ræðumenn fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð verða Steingrímur J. Sigfússon, 5. þm. Norðausturkjördæmis, í fyrstu umferð, í annarri Kolbrún Halldórsdóttir, 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, og í þriðju umferð Hlynur Hallsson, 10. þm. Norðausturkjördæmis.

Fyrir Frjálslynda flokkinn tala í fyrstu umferð Guðjón A. Kristjánsson, 5. þm. Norðvesturkjördæmis, Sigurjón Þórðarson, 10. þm. Norðvesturkjördæmis, í annarri umferð, en í þriðju umferð Magnús Þór Hafsteinsson, 9. þm. Suðurkjördæmis.