132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Góðir Íslendingar. Svokölluð Baugsmál hafa vakið athygli á þeirri staðreynd að hér virðast vera sérstakar innvígðar klíkur sem með sérstökum sendingum og samráði er ætlað að leggja línur um málsmeðferð og á það lagt mat hvort t.d. fjármálaráðherra vilji gefa samþykki sitt fyrir því að til þess bærar stofnanir fái mál til meðferðar. Sagt er að það sé svo gott að eiga alla þessa samráðsbræður í málum sem ganga til rannsóknar og dómstóla. Menn verða innmúraðir í trúnaði sínum við sinn flokk eftir að hafa undirbúið „rétta leið“ í málsmeðferðinni og fengið vitneskju um að aðförin væri með fullum vilja forustumanna.

Þjóðin fær varla trúað að svona neðanjarðarspilling sé til staðar. Þannig er því einnig farið með þingmenn og miðstjórn Frjálslynda flokksins sem ræddi þessi mál og önnur á fundi í síðastliðinni viku. Við eigum sem betur fer ekki neina aðkomu í klíkuskapinn, tölvupóstinn né matarboðin, sem virðast vera aðdragandinn að því hvort fólk telji mögulegt að leita réttar síns. Við í Frjálslynda flokknum ætlum að hafa þá trú að treysta megi því að þeir víki úr máli sem því tengjast svo að almenningur missi ekki trú á íslenskt réttarfar.

Aðkoma forsætisráðherra að einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma var í meira lagi vafasöm og hreinn klaufaskapur af hans hálfu að huga ekki að vanhæfi sínu í því máli. Trúverðugleiki er ávallt meira virði en milljónatugir. Það er vandasamt að gæta hlutleysis í litlu fjölskyldu- og vinaþjóðfélagi og ekki fæ ég séð að æðstu menn ríkisstjórnar, Sjálfstæðis og Framsóknar, hafi svo mikið sem reynt að feta slóð jafnræðis. Í öllum verkum og stöðuveitingum njóta flokksmenn þess að vera í forgangsröð. Nægir að minna á skipun dómara, sendiherra, sýslumanna og nú síðast ritstjóra.

Ég vil óska nýjum sjávarútvegsráðherra velfarnaðar. Um leið vil ég leyfa mér að bera þá von í brjósti að hann hafi, þrátt fyrir yfirlýsingar sínar um að fylgja vel eftir einbeittum kvótavilja forvera síns, þá skynsemi og frumkvæði til að bera að opna fyrir innkomu nýliða í útgerð og fækka kvótabundnum fisktegundum. Sjávarbyggðirnar mega alls ekki við því að dugnaðarsjómenn eigi ekki leið til þess að komast að í grunnatvinnuvegi þeirra. Hvernig væri komið fyrir Bolungarvík ef þeir sem þar gera út hefðu ekki átt opna leið inn í útgerð smærri báta á sínum tíma? Sama má segja um Samherjamenn. Ef þeim hefði ekki verið opnuð leið á sínum tíma inn í kvótakerfið væri staða Eyfirðinga ekki sú sem hún er í dag í útgerð og fiskvinnslu.

Við í Frjálslynda flokknum munum óhræddir leggja fram þingmál og stefnu um hvernig megi koma nýjum mönnum að í útgerðinni án þess að þeir hafi fæðst með gullskeið kvótans í munni eða fundið sér mægðaleið inn í útgerðarfyrirtæki.

Sú mikla skuldsetning sem fylgir núverandi kvótabraskskerfi er stórhættuleg fyrir þjóðfélagið. Það er ömurlegt hlutverk dugnaðarsjómanna að vera leiguliðar á óveiddum fiski annarra manna. Slíkt leigu- og sölukerfi drepur niður frumkvæði einstaklinga til atvinnu í sjávarbyggðunum. Það er því miður margt líkt með leiguliðunum að fiskikvótunum nú og því vistarbandi sem fólk bjó við á Íslandi fyrir hundrað árum síðan. Það má beina því til sjónvarpsins að endursýna þættina um það tímabil niðurlægingar þjóðarinnar þegar fáir áttu allt sem vistarmennirnir unnu sér inn annað en lélegt fæði og klæði. Nú er mönnum á nýjan leik þröngvað til að verða leiguliðar að lífskjörum sínum, því miður. Þannig er eignarréttur kvótans í verki.

Framkvæmdum, uppgangi og þenslunni er mjög misskipt á landinu í dag. Segja má að mikið sé um að vera austan lands í verklegum framkvæmdum og húsbyggingum. Það fylgir álverstengdum framkvæmdum. Sama má segja um svæðið norðan Hvalfjarðar og á suðurhluta Vesturlandsins. Þenslan á Stór-Reykjavíkursvæðinu nær einnig til Borgarfjarðar og allt austur á Suðurland. Sama verður ekki sagt um stóran hluta Norðvesturkjördæmis, né um stóran hluta Norðurlands eða Norðausturlands, þar sem undirstaðan er byggð á sjávarútvegi, á landbúnaði ásamt aukinni ferðamannaþjónustu. Ofurgengi íslensku krónunnar er að knésetja atvinnu margra þessara byggða. Samt á enn að skera niður verklegar framkvæmdir eins og vegagerð á næsta ári einmitt á þessum svæðum sem eftir hafa setið við svikin loforð stjórnarherranna.

Á þessu er ein ánægjuleg undantekning. Samþykkt hefur verið að gera jarðgöng á stórhættulegum vegarkafla á Óshlíð sem fyrst. Því ber auðvitað að fagna. Ég hef oft spurt að því hvað 40–50 menn í vegagerð valda mikilli þenslu á skala verðbólgunnar. Við því fást ekki svör hvorki hjá ráðherrum né talnafræðingum þeirra, enda eru þau vart mælanleg og ekki lækkar verðbólgan þó að Almannaskarðsgöngum og Fáskrúðsfjarðargöngum sé lokið, svo dæmi sé tekið. Niðurstaðan er auðvitað sú að 40–50 manna hópur manna við vinnu í jarðgangagerð eða vegagerð mælist ekki í þenslunni. Hvað þá ef unnið er á svæði þar sem enginn hefur orðið þenslunnar var. Heildarumsvif byggingarframkvæmda suðvestan lands eru margföld umfram framkvæmdir í vegagerð og þar á að byggja nýjan háskóla, tónlistarhús og þar rís hvert háhýsið á fætur öðru, en það er svo merkilegt að öllum þessum byggingum sem bankarnir lána til fylgir engin þensla að þeirra mati.

Svo tala menn um að rífa niður eitt stykki flugvöll sem nýbúið er að endurbyggja af því að það þurfi nauðsynlega að byggja fljótt á dýru lóðunum þar sem flugvöllur allra landsmanna er. Ég fagna því að F-listinn í Reykjavíkurborg hefur látið skynsemina ráða í afstöðu sinni til þess að flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík. Höfuðborg er miðstöð menningar og þjónustu og samgangna og hún þarf á flugvelli að halda. Okkur landsbyggðarfólki kemur það við hvaða aðgang við höfum að þessari höfuðborg. Okkur kemur það við hvar innanlandsflugið er staðsett. Okkur kemur það líka við þegar bara þarf að fresta framkvæmdum úti á landi. Þá er því logið að fólki að tveggja milljarða niðurskurður í vegagerð ráði niðurlögum verðbólgunnar. En allt má vaða áfram í framkvæmdum á suðvesturhorninu. Hvar er nú jafnræðið og jöfnuður í stefnu þeirra sem ráða ríki og borg? Hvergi.

Við í Frjálslynda flokknum höfum síðastliðin fimm ár flutt tillögu að bættum kjörum eldri borgara sem við kölluðum „leið að tryggum lágmarkslífeyri ellilífeyrisþega“. Við fögnum því að nú skuli fleiri flokkar á Alþingi vera með málatilbúnað í svipaða veru varðandi bætt kjör eldri borgara sem er í sama anda og við höfum barist fyrir undanfarin fimm ár.

Í ráðstöfun á söluverði Símans vantaði tilfinnanlega á að einhverjum fjármunum væri varið til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Ég ól samt þá von í brjósti að í fjárlögunum yrðu kjör eldri borgara og jafnvel öryrkja bætt. Það er nú öðru nær. Svokallaður bensínstyrkur er af þeim tekinn. Hafa eldri borgarar og öryrkjar eitthvað til saka unnið? Þolir ríkisstjórnin ekki málflutning þeirra? Fundu menn nú breiðu bökin sem bæta eiga tekjumissinn af niðurfellingu hátekjuskattsins á næsta ári? Hefði ekki verið nær að hækka persónuafsláttinn um 2.800 kr. á mánuði fyrir milljarðana fjóra sem 1% tekjuskattslækkun kostar á næsta ári? Því miður horfir ríkisstjórnin ekki til bættra kjara eldri borgara og öryrkja né annarra með lágar tekjur í skattastefnu sinni.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagst gegn því að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu og teljum að þeim fjármunum sem til þess á að kasta sé miklu betur varið í þróunaraðstoð við ríki og þjóðarbrot sem þurfa leiðsögn og hjálp til betra lífs og menntunar. Við fáum ekki séð að réttlætanlegt sé að ganga svo undir eigin metnaði og þjóðarleiðtogadraumum að til þess sé fórnað mörg hundruð milljónum. Það fé er betur komið til annarra verka og mannúðarmála að okkar mati.

Stjórnarskrá Íslands er nú til endurskoðunar í nefnd stjórnmálamanna og sérfræðinga. Við í Frjálslynda flokknum höfum talið að betra væri að gera landið að einu kjördæmi en að búa lengi við þessa skipan mála með þrjú geysistór landsbyggðarkjördæmi og götuskipta höfuðborg í tvö kjördæmi. Auk þess teljum við af fenginni reynslu að margt megi betur fara við framkvæmd kosninga. Lítið er farið að reyna á hvað gæti orðið samstaða um í nefndinni. Eitt virðist þó stefna í en það er að fólkið í landinu fái beina aðkomu að umdeildum málum með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins og jafnan áður munu þingmenn Frjálslynda flokksins styðja þau mál, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, sem við metum að til heilla horfi fyrir okkar þjóð. — Góðar stundir.