132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:11]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Mannlíf, velsæld og almennur hagur landsmanna hefur aldrei verið betri í sögu þjóðarinnar. Það staðfesta alþjóðlegir mælikvarðar, umsagnir erlendra álitsgjafa og það er almenn skoðun landsmanna. Þetta er arfleifð Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann hverfur af vettvangi stjórnmála eftir áratuga forustustörf í þágu þjóðarinnar.

Því er stundum haldið fram að þeir sem gegna valdastöðum í samfélaginu reyni með ýmsum ráðum að auka völd sín og áhrif. Tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar hefur hins vegar einkennst af hinu gagnstæða. Markvisst hefur verið dregið úr valdi stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í þeim tilgangi að auka valddreifingu og lýðræði í landinu. Bankar og önnur ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd og færð í hendur atvinnulífsins og losað um viðskiptahömlur. Við það hafa nýir kraftar leyst úr læðingi, sköpunargleði og framtak einstaklinga verið virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Réttarstaða borgaranna gagnvart stjórnvöldum hefur verið efld, m.a. með setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Almannahagur hefur verið hafður að leiðarljósi.

Við Íslendingar lifum í réttarríki og frjálsu samfélagi. Við búum við lýðræðisskipulag sem er okkur dýrmætt. Við virðum tjáningarrétt einstaklinga og viljum standa vörð um rétt þeirra til einkalífs. Umræða um hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi hefur verið áberandi á síðustu missirum og þessa dagana sem aldrei fyrr. Fjölmiðlar eru oft kallaðir fjórða valdið með vísan til áhrifamáttar þeirra. Það má vera að Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið hafi á sínum tíma verið „í föstum skorðum flokkakerfis,“ eins og forseti Íslands orðaði það í þingsetningarræðu sinni, með leyfi forseta. Það má þó segja að útgáfa þessara ólíku dagblaða hafi tryggt ákveðna fjölbreytni í fréttamiðlun og ritstjórnarstefna þeirra var öllum ljós. Hún byggðist fyrst og fremst á mismunandi afstöðu til hugmynda og stjórnmálastefna og áhrifa þeirra á líf fólks og þróun samfélagsins. Það var hægt að vega og meta fréttaflutning með það í huga.

Í dag er raunveruleikinn annar. Eignarhald á stórum hluta fjölmiðlamarkaðarins er á einni hendi og önnur sjónarmið ríkja, eins og við höfum orðið vitni að síðustu daga. Almannahagsmunir og virðing fyrir réttindum fólks hafa vikið fyrir einkahagsmunum. Hugmyndir og stefnur hafa vikið fyrir rógburði, dylgjum, rætni og grimmd gagnvart þeim sem eigendur fréttamiðlanna telja sig eiga í útistöðum við. Mörgum er misboðið.

Ég tel að flestum sé ljóst að fjölmiðlalögin sem numin voru úr gildi á síðasta ári hafi átt rétt á sér. Jafnvel þeir sem börðust hvað harðast gegn frumvarpinu hafa tjáð sig í þá veru. Nú er kallað á slíka lagasetningu vegna almannahagsmuna. Markmiðið er dreift eignarhald á fjölmiðlum til að tryggja frelsi fjölmiðla og lýðræðislega umræðu og skapa okkar annars ágæta fjölmiðlafólki starfsumhverfi sem það á skilið.

Virðulegi forseti. Ný skoðanakönnun Gallups bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn njóti almenns trausts í samfélaginu. Fólk veit að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir stefnufestu en lætur ekki stjórnast af hentisemi. Fólk gerir sér grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir stöðugleika sem tryggir hag fjölskyldunnar og hann stendur fyrir samábyrgð og velferð. Þess vegna treystir fólk Sjálfstæðisflokknum.

Nú liggur fyrir hinu háa Alþingi að taka ákvörðun um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands. Hluta þess fjármagns verður ráðstafað til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús, sem er ánægjuefni. Sérstaklega vil ég þó fagna því að átak verður gert til að bæta hag og lífsskilyrði geðfatlaðra með nýjum búsetuúrræðum utan stofnana. Ég legg áherslu á að átakið taki einnig á vanda geðfatlaðra barna og þörf fyrir búsetuúrræði þeim til handa, en umönnun þeirra er nú fyrst og fremst í höndum fjölskyldna þeirra sem bera oft þunga bagga og óhóflegt álag vegna þess.

Alvarlegur skortur á starfsfólki á fyrstu skólastigum og í öldrunarþjónustu er áhyggjuefni. Fjölskyldur eru í vanda vegna gæslu barna sinna og vegna ættingja sem eru á biðlista eftir vistun á hjúkrunarheimili. Aukið álag er á sérhæfð sjúkrahús sem taka við öldruðum af biðlista til umönnunar. Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er að sjálfstæðir aðilar sem reka sambærilega starfsemi hafa geta fullmannað stöður hjá sér. Að mati Margrétar Pálu Ólafsdóttur, formanns Samtaka sjálfstæðra skóla, er ástæðan fyrst og fremst sú, með leyfi forseta: „... að við búum við ákveðið rekstrarlegt sjálfstæði sem gerir okkur kleift að hafa ákveðið frumkvæði í starfsmannahaldinu.“

Ég hef verið talsmaður þess að auka samstarf stjórnvalda og einkaaðila um rekstur velferðarþjónustunnar en fjármagn komi eftir sem áður úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ég tel fulla ástæðu til að ríkisstjórnin geri átak í þessa veru til hagsbóta fyrir þjónustuna, til betri nýtingar fjármuna og fyrir samfélagið allt. Ég tel mig vita að a.m.k. þingmenn Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu muni styðja slík áform eins og við munum sjálfsagt heyra talsmenn Samfylkingarinnar segja síðar í kvöld.

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar ræddi ég um gæði íslensks samfélags. Góðæri vekur bjartsýni og bjartsýni virkar eyðsluhvetjandi á almenning og fyrirtæki. Viðskiptahallann og hátt gengi krónunnar má m.a. rekja til þessa en staða krónunnar er farin að vega allharkalega að útflutningsatvinnugreinunum og ferðaþjónustunni. Ég tek því undir áhyggjur Seðlabankans og áskorun hans til almennings og fyrirtækja um að auka sparnað og draga úr neyslu. Vaxtahækkun Seðlabankans er ætluð til að stuðla að þessari þróun þótt vissulega megi draga í efa hvort það dugi. Til þess þarf samtaka átak margra og það er verkefnið fram undan. — Góðar stundir.