132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:32]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Sannarlega ríkir mikil gleði og kraftur í íslensku samfélagi. En með sama hætti hlýtur mörgum að renna til rifja að horfa upp á og hlusta á virðulega stjórnarandstöðu steypa sér ofan í þann dýpsta táradal sem málaður hefur verið í sölum Alþingis. Niðri í því myrkviði virðast stunduð það sem ýmist er kallað samræðustjórnmál eða dylgjustjórnmál en birtingarformið er bölmóður, vonleysi og almenn depurð.

Þeir sem trúa á tækifærin, bjartsýnina og gleðina hafa auðvitað þá siðferðilegu skyldu að hjálpa þessum félögum okkar upp úr hinum mikla táradal og til allrar hamingju eru meðulin næg. Komið hefur fram að ríkissjóður hefur aldrei staðið sterkar að vígi en nú. Þrátt fyrir það eru veittir meiri fjármunir til velferðarkerfisins en nokkru sinni, til heilbrigðismála, til félagsmála og til menntamála. Við leggjum í metnaðarfyllri samgöngubætur en nokkru sinni hafa sést. Fjarskiptasjóður er kominn á laggirnar og mun tengja alla landsmenn inn á öldur ljósvakans á 21. öldinni. Nefna má hátæknisjúkrahús svo að ekki sé minnst á milljarða til nýsköpunar sem koma til móts við frumkvöðla og hið unga menntaða fólk sem kemur inn á atvinnumarkaðinn. Þau eru sannarlega næg, meðulin, og ég trúi því að félagar okkar úr stjórnarandstöðunni muni koma upp úr táradalnum, sjá ljósið, sjá tækifærin og öðlast gleði sína að nýju. En nóg um það, frú forseti.

Fyrir rúmum tveimur árum komu forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga til fundar við hæstv. félagsmálaráðherra. Og hvert var erindið? Að hvetja ráðherra og ríkisstjórn til að ganga til liðs við forsvarsmenn sveitarfélaga um að fækka sveitarfélögum og stækka þau með lýðræðislegri sameiningu. Hvað skyldi nú reka forsvarsmenn sveitarfélaga til sameiningarátaks? Það er í raun sú staðreynd að núverandi skipan sveitarfélaga á rætur sínar að rekja til Jónsbókar. Hafi það farið fram hjá einhverjum, sem á stundum mætti halda miðað við orðræðuna, þá hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélaginu frá því að Jónsbók var rituð skömmu eftir Sturlungaöldina. Breytingarnar hafa ekki orðið á einu sviði heldur á öllum sviðum, gildismat, þjónusta, búskaparhættir og þar fram eftir götunum. Eitt hefur þó ekki breyst og það er sá grunnur að sveitarfélagaskipan sem Jónsbók mælti fyrir um. Forsvarsmenn sveitarfélaga kalla eftir slíkum breytingum. Þeir vilja breytingar vegna þess að núverandi skipan er orðin akkillesarhæll fyrir mörg sveitarfélög.

Hver er þá ávinningur með hugsanlegri sameiningu? Rekstur sveitarfélaga snýst ekki einungis um skolp eða skóla. Rekstur sveitarfélaga snýst um fjölbreytileika þar sem fjölbreytileiki mun ráða í framtíðinni. Þar sem er fjölbreytileiki í atvinnuháttum, fjölbreytileiki í menningu og fjölbreytileiki á öllum sviðum, mun sumum sveitarfélögum vel farnast en önnur munu eiga mjög erfitt uppdráttar. Eftir því kalla forsvarsmenn sveitarfélaga með því að stækka sveitarfélögin.

Þá hljóta menn að spyrja: Af hverju er sá fjölbreytileiki ekki til staðar hjá hinum minni sveitarfélögum? Og aftur kemur svarið: Smæð þeirra. Þau hafa ekki burði til að taka að sér verkefni sem þess í stað hafa lent í höndum ríkisins og er miðstýrt af ríkisvaldinu, fjarri heimahögum þannig að fólkið sem á að njóta þjónustunnar fær litlu eða engu ráðið um með hvaða hætti þjónustustigið er heima í héraði. Um það munu þessar sameiningarkosningar næsta laugardag snúast. Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa kallað eftir því að fá verkefni frá ríki, fá fjármuni frá ríki og fá störf frá ríkinu til að geta haldið uppi þeim fjölbreytileika sem er svo nauðsynlegur fyrir sveitarfélög 21. aldarinnar.

Ég vil að lokum, frú forseti, lýsa ánægju með að sjá hér konu sitja í forsæti. Það er mjög við hæfi því að þann 24. október næstkomandi verður þess minnst að konur hófu hina miklu jafnréttisbaráttu fyrir 30 árum. Mikið hefur áunnist en engan veginn nóg og ég trúi að í tilefni þeirra tímamóta muni það koma fram í orðum okkar og athöfnum á því þingi sem nú er að hefjast.