132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:44]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég var undrandi á því að heyra hinn unga varaformann Samfylkingarinnar hefja ræðu sína með hálfum sögum og dylgjum. En það má kannski segja að hann sé engum manni líkur. Ef ég man rétt þá tókst honum að fá 900 atkvæði á fundi þar sem 500 voru mættir.

Það er svo, frú forseti, að mjög mikið hefur verið talað um skuldir heimilanna. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að þær næmu 1.000 milljörðum kr. En hann gleymdi hinu að eignir heimilanna eru a.m.k. 4.000 milljarðar kr. Hann sagði að skuldir heimilanna væru 1.000 milljarðar kr. en gleymdi því að eignirnar eru 4.000 milljarðar kr., í lífeyrissjóðum, fasteignum og verðbréfum, eða sem svarar til 10 millj. kr. hreinnar eignar á hvern einstakan mann í landinu, ungan sem gamlan. Þetta er athyglisvert og í þessu samhengi sést hvernig hægt er að draga upp ranga mynd með því að segja hálfa sögu eða hluta af sögunni.

Einnig vakti athygli mína hin mikla áhersla sem Vinstri grænir leggja á að berjast gegn stóriðju hér á landi. Við munum það frá þeim dögum er Alþýðuflokkurinn fór með stóriðjumál að illa gekk að byggja upp stóriðjuna. Við munum líka að á þeim tíma versnuðu lífskjör ár frá ári og við vorum í vandræðum vegna þess að gjaldeyristekjur á einstakling minnkuðu. Það var ekki fyrr en með þeirri ríkisstjórn sem nú situr, árið 1995, að það tókst að snúa þessari þróun við. Nú er svo komið að lífskjör hafa vaxið um 50%. Ef við horfum til Miðausturlands þá sjáum við, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að þar ríkir mikil bjartsýni.

Það er alveg rétt, og ég tek undir það sem a.m.k. tveir þingmenn hafa sagt í kvöld, að það voru hörmuleg tíðindi að Slippstöðin skyldi hafa verið lýst gjaldþrota. Hvorki fleiri né færri en 100 manns fóru á atvinnuleysisskrá í dag eins og sagt var frá í kvöldfréttum. En við skulum líka hafa í huga að þetta er traust og gott fyrirtæki, að fjárfestar eru reiðubúnir til að taka upp þráðinn og bæði bæjaryfirvöld og hafnarstjórn hafa lýst sig reiðubúin til samstarfs. Þess mun því að vænta að Slippstöðin geti hafið starfsemi að nýju mjög bráðlega.

Ég vil líka taka undir það sem ýmsir hafa sagt um hinar dreifðu byggðir. Ég heyrði að þingmaður Samfylkingarinnar á Sauðárkróki heldur enn að Siglufjörður tilheyri Norðvesturkjördæmi. Þannig er það nú ekki. En þegar við hugsum um hinar dreifðu byggðir vitum við að sjávarútvegurinn getur ekki tekið við öllu því nýja fólki sem kemur vegna vélvæðingar og af öðrum ástæðum. Þess vegna verður að byggja upp annan grundvallaratvinnuveg í þeim byggðarlögum og við munum eftir því að forustumenn sjávarútvegsins í Neskaupstað og á Eskifirði fögnuðu því að þurfa ekki einir að bera ábyrgð á þróun byggðar og afkomu heimilanna á þeim stað. Af þessum sökum voru þeir mjög áhugasamir um uppbyggingu stóriðju sem við studdum, sem vorum í þeirri ríkisstjórn, og sumir þakka sér meira en aðrir.

Ég vænti þess að við getum tekið höndum saman um það, ég og aðrir þingmenn í Norðausturkjördæmi, að næsta álver rísi við Skjálfandaflóa. Við vitum að byggðirnar á norðausturhorninu eru veikar. Þær þurfa nýtt blóð og meiri kraft. Við höfum nú barist saman á þessum slóðum, við Steingrímur J. Sigfússon, síðan hann flutti sína fyrstu ræðu á sameiginlegum fundi okkar 1978 á Kópaskeri. Það kemur engum á óvart að þá var hann að lýsa andstöðu sinni við álver og hefur haldið þeim tóni síðan. Það er meiri staðfesta en margur annar hefur sýnt í pólitík en ég vil vona satt að segja að nú sé að því komið að við tökum höndum saman um atvinnumál okkar kjördæmis.

Ég vil líka segja að ég skil vel þær áhyggjur sem hann og fleiri þingmenn hafa lýst vegna hins háa gengis krónunnar. En það er þannig að gengi gjaldmiðilsins er sterkt í löndum sem búa við sterkan efnahag og góðan hagvöxt. Seðlabankinn hefur enn hækkað stýrivexti til að slá á verðbólgu og við skulum muna að verðbólga hér á landi er svo sem engin ef við tökum húsnæðiskostnaðinn ekki inn í hana, eins og víðast hvar er gert erlendis. Nú ríður á að halda niðri verðbólgunni og óeðlilegum hækkunum til að tryggja lífskjör og jafnvægi. Ég vil trúa því að gengið hafi náð hámarki og þess sé skammt að bíða að krónan gefi eftir uns nýju jafnvægi er náð. Þess vegna er það brýnt að veita aðhald í ríkisfjármálum eins og gert er í fjárlagafrumvarpinu og hvetja til sparnaðar í landinu. Það viljum við sjálfstæðismenn gera. Við viljum halda þeim vana okkar og vanda að bregðast við aðsteðjandi erfiðleikum með viðeigandi hætti og tryggja viðvarandi velmegun í landinu.