132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:37]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í nýjasta hefti Peningamála, sem kom út í september, segir á fyrstu síðu:

„Á næstu árum verða aðstæður í þjóðarbúskapnum óvenju erfiðar frá sjónarhóli peningastefnunnar. Hvernig tekst að beita henni til þess að koma í veg fyrir að verðbólga umfram markmið festi rætur verður nokkur prófsteinn á hve vel núverandi umgjörð hennar hentar litlu, opnu hagkerfi.“

Prófsteinn á hve vel hún hentar, hvað felst í þeim orðum? Mér finnst dálítið merkilegt hve fáir hafa höggvið eftir þessum orðum í septemberhefti Peningamála. En í þessum orðum felst að við eigum bara tvo kosti: að halda okkur við þau verðbólgumarkmið sem Seðlabankanum voru sett með lögunum frá 2001 og sátt varð um hér á Alþingi eða að taka upp annan gjaldmiðil. Það eru bara þessir tveir kostir í stöðunni. Á það er Seðlabankinn að benda í Peningamálum, að halda sig við verðbólgumarkmiðin eða að taka upp annan gjaldmiðil.

Ríkisstjórnin hafnar aðild að Evrópusambandinu en með aðgerðum sínum og andvaraleysi vinnur hún í raun að því að hér verði evran tekin upp sem gjaldmiðill.

Á fundi stjórnar Seðlabankans, þegar hún kynnti þetta hefti og vaxtahækkanir sínar, kom mjög harður tónn frá bankastjórninni. Skilaboðin voru þau að bankinn væri staðráðinn í að gera allt sem í hans valdi stæði til að halda verðbólgu sem næst verðbólgumarkmiði bankans á næstu tveimur árum og til lengri tíma litið, jafnvel þótt það kynni að koma hart niður á ýmsum atvinnugreinum. Bankinn hefur varað við hugmyndum um að hleypa verðbólgunni í gegn, eins og sumir vilja gjarnan, og bendir á að það sé undantekningalaust sársaukafyllri aðgerð að bera hana út aftur en fyrirbyggjandi aðgerðir sem geta komið í veg fyrir innreið hennar. Við Íslendingar höfum af þessu langa og sársaukafulla reynslu eins og þjóðarsáttin bar vott um á sínum tíma. Þess vegna er varað mjög við því að hleypa henni í gegn.

En hver er staðan og af hverju tek ég upp þessa umræðu um stöðu efnahagsmála? Jú, verðbólgan er í annað sinn á þessu ári komin yfir vikmörk Seðlabankans, skuldsetning heimila og fyrirtækja hefur vaxið gríðarlega á síðastliðnu ári og aldrei verið meiri. Útlán bankakerfisins hafa vaxið um 485 milljarða kr. á einu ári eða um 46%. Viðskiptahallinn hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust og það er athyglisvert að skoða hvenær viðskiptahallinn fór hæst áður. Hann fór hæst árið 1947 í 12,5% í stríðslok, þegar þjóðina vanhagaði um alla hluti og nýsköpunartogararnir voru fluttir inn. Hún fór síðan í 8,8% 1968 við hrun síldarstofnsins, þ.e. annars vegar þegar áföll urðu vegna stríðsreksturs og við vorum að jafna okkur eftir það og hins vegar vegna mikils hruns í útflutningstekjum. Þá tókumst við á við áföllin og þá fór viðskiptahallinn hæst. En núna er hann kominn enn hærra, kominn í 14% og þetta áfall, sem við tökumst nú á við, er framleitt innan lands.

Sterk staða krónunnar, við höfum séð hvernig hún kemur við útflutningsgreinarnar og samkeppnisgreinarnar, þar sem hvert fyrirtækið af öðru leggur upp laupana, segir upp fólki og flytur úr landi vegna þess að fyrirtækin fá ekki staðist samkeppnina. En forsætisráðherra er fáorður um þessi mál. Hann var fáorður um þau í gær og það komu engin skilaboð frá ríkisstjórninni um hvernig hún hygðist taka á málum, takast á við vaxandi þenslu.

Á ársfundi Seðlabankans fyrr á þessu ári sagði forsætisráðherra eitthvað á þá leið að hann hefði enga trú á því að ríkisfjármálin væru hagstjórnartæki til að takast á við skammtímasveiflur. Hann sagði að honum virtist sem, með leyfi forseta:

„... menn átti sig ekki alveg á hagstjórnarhlutverki ríkisfjármála í nútímahagkerfi. Að mínu viti er alveg augljóst að hlutverk ríkisfjármálanna á fyrst og fremst að lúta að langtímasjónarmiðum og skipulagi hagkerfisins. Það á ekki að beita ríkisfjármálunum til þess að draga úr skammtímasveiflum í efnahagslífinu.“

Núna kveður við sama tón í þjóðhagsspánni sem lögð var fram í vikunni. Af þessum sökum vil ég leggja eftirfarandi spurningar fyrir ráðherrann:

1. Fjármálaráðuneytið virðist ekki hafa trú á því að Seðlabankanum takist að ná verðbólgumarkmiðum sínum fyrr en á árinu 2009. Er forsætisráðherra sömu skoðunar?

2. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að leggja Seðlabankanum lið í baráttunni við verðbólguna?

3. Hvernig hyggst ríkisstjórnin beita sér andspænis því að forsendur kjarasamninga eru brostnar vegna hækkandi verðbólgu?

4. Er forsætisráðherra enn þeirrar skoðunar sem hann lýsti á síðasta aðalfundi Seðlabankans að þeir tímar séu liðnir að beita eigi ríkisfjármálunum til að draga úr skammtímasveiflum í efnahagslífinu?