132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að taka upp þessa umræðu, sem ég tel að sé mjög mikilvæg við þessar aðstæður.

Hún spurði fyrst hvort forsætisráðuneytið væri sammála fjármálaráðuneytinu um að það væri ekki líklegt að Seðlabankanum tækist að ná verðbólgumarkmiði sínu. Fjármálaráðuneytið hefur ekki gefið út neina skoðun á því frekar en aðrir. Við skulum vona það, öll sem hér erum, að við náum sem mestum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni á sama tíma og við höldum áfram þeim mikla uppgangi sem er í þjóðfélaginu.

Það varð hins vegar leið villa í skýrslu fjármálaráðuneytisins þar sem tölur um verðbólgu áttu að vera tölur um atvinnuleysi og tölur um atvinnuleysi áttu að vera tölur um verðbólgu. Þannig er sáralítill munur á spá Seðlabankans og spá fjármálaráðuneytisins. Það kemur fram í spá fjármálaráðuneytisins að þeir gera ráð fyrir meðalverðbólgu á árunum 2007–2010 upp á 2,9%. Seðlabankinn spáir að árið 2006 verði verðbólgan upp á 3,7%, fjármálaráðuneytið spáir 3,8%. Á árinu 2007 spáir Seðlabankinn verðbólgu upp á 3,7% meðan fjármálaráðuneytið spáir 4%.

Það er ekki mikill munur á þessum spám og engin ástæða til að gera eitthvað úr honum. Þetta eru svipaðar spár og hafa verið og á þeim hefur ekki orðið mikil breyting. Það er því miður allt of mikið gert úr þessu máli og nauðsynlegt að leiðrétta það. Ég tel ástæðulaust að eyða frekari orðum í það.

Hv. þm. spyr hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að leggja Seðlabankanum lið í baráttunni við verðbólguna. Það liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin gerir allt sem í hennar valdi stendur til að halda verðhækkunum í skefjum. En ríkisstjórnin telur jafnframt að það sé afar þýðingarmikið að halda áfram að byggja upp í þjóðfélaginu, skapa meiri verðmæti og meiri atvinnu fyrir fólkið. Við höfum núna lagt fram fjárlög fyrir árið 2006, sem er þriðja árið í röð sem lögð eru fram mjög aðhaldssöm fjárlög. Ég get jafnframt upplýst hv. þingmann um að nú stendur yfir á vegum félagsmálaráðherra gagnger endurskoðun á Íbúðalánasjóði. Ríkisstjórninni er það ljóst að þar á bæ þarf að koma til breyting vegna þeirra breyttu aðstæðna sem komið hafa upp í þjóðfélaginu og við munum flýta þeirri endurskoðun. En það er náttúrlega vitað að m.a. mikil þensla á íbúðamarkaði á allmikla sök á því hverjar verðhækkanirnar hafa orðið. Verðhækkanirnar hafa fyrst og fremst orðið vegna húsnæðisverðs og olíuverðs.

Hv. þingmaður spyr um hvað ríkisstjórnin hyggist gera vegna þess að forsendur kjarasamninga séu brostnar vegna hækkandi verðbólgu. Ég tel allt of mikið sagt þegar fullyrt er að forsendur kjarasamninga séu brostnar. Kaupmáttur launa hefur hækkað um 60% í landinu á undanförnum tíu árum. Er það slæm efnahagsstefna? Er allt í uppnámi út af því? Er það svona slæmt að kaupmáttur hefur aukist svo mikið? Gert er ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vaxi í ár um 3,7%, 2,7% á næsta ári og 2,1% árið 2007. Ætli það sé ekki alveg ljóst að þetta verði eitt af þeim atriðum sem menn meti þegar þeir fara yfir kjör fólksins í landinu um þessar mundir?

Það liggur fyrir að frá því að kjarasamningar voru gerðir hafa verið teknar ákvarðanir um mikilvægar skattalækkanir sem gjörbreyta þessari stöðu. Ég er fullviss um að besta leiðin til að bæta kjör fólks um þessar mundir er að lækka skattana en ekki að hækka prósentur launa (Forseti hringir.) og við munum halda fast við þá stefnu.