132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu. Það er ágætt að eiga þess kost að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um efnahagsmál til viðbótar því tækifæri sem gafst í gærkvöldi og gefst á morgun þegar við ræðum hér frumvarp til fjárlaga.

Það er líka mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa fallist á að vera viðstaddur þessa umræðu. Það er afar mikilvæg viðurkenning á því að hæstv. forsætisráðherra fari með efnahagsmál í ríkisstjórninni og það er einnig ákveðin viðurkenning á því að ríkisstjórnin telur þrátt fyrir allt að henni komi efnahagsmál við. Það hefur mátt efast um það af framgöngu hæstvirtra ráðherra og því hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur talað á köflum eins og hér var m.a. vitnað til, hinni merkilegu ræðu hans á aðalfundi Seðlabankans þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni og hefur reyndar gert í blaðaviðtölum að í raun og veru sé þetta alls ekkert mál ríkisstjórnarinnar. Það sé úrelt og einhver gömul forneskja að ríkisstjórninni komi eitthvað við framgangur efnahagsmála, það sé bara vandamál einhverra annarra, Seðlabankans, bankanna, viðskiptalífsins, heimilanna o.s.frv.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í samskipti ríkisstjórnarinnar við Seðlabankann. Þessir aðilar virðast aðallega talast við í blöðum, skiptast á skeytum í gegnum fjölmiðla, og þjóðin og þeir sem fylgjast með framvindu efnahagsmála og umræðum um efnahagsmál upplifa þessa aðila sem andstæðinga sem vinni hvor gegn öðrum.

En er það nú svo? Er það samkvæmt laganna hljóðan að þannig eigi það að vera? Nei, það er nefnilega dálítið merkilegt að í 2. mgr. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, stendur enn þá að Seðlabankinn skuli stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiðum sínum skv. 1. gr., þ.e. verðstöðugleikamarkmiðinu. En þetta felur náttúrlega í sér að tvennt þarf að gerast. Ríkisstjórnin þarf í fyrsta lagi að hafa stefnu í efnahagsmálum til þess að Seðlabankinn geti stuðlað að framvindu hennar og það má heldur ekki vera (Forseti hringir.) grundvallarágreiningur um framgönguna. Það er að mínu mati vandamálið. Það væri fróðlegt að heyra (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra tjá sig aðeins betur um samskiptin við Seðlabankann hér á eftir.