132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[14:01]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það virðist vera mikið tískuorð þessa dagana að tala um afneitun, sérstaklega að ríkisstjórnin sé í afneitun. En mér virðist einna helst að það séu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eru í afneitun. Þeir afneita hinni sterku stöðu ríkissjóðs og hinni sterku efnahagslegu stöðu sem þjóðin er í, því opna hagkerfi sem við höfum búið við. Vissulega geta komið upp ýmsir ófyrirséðir hlutir í opnum hagkerfum en ef rétt er á málum haldið er hægt að koma þeim vel á veg þannig að þeir skili sér sem sterkari staða einstaklinganna efnahagslega í hagkerfinu og það kemur auðvitað fram í því, hv. þingmaður sem er að muldra eitthvað ofan í bringu sér, (Gripið fram í: Ef rétt er á málum haldið, heyrði ég að hæstv. ráðherra sagði.) að einstaklingarnir geta tekið lán, bankarnir treysta sér til að lána þeim vegna þess að þeir hafa sterka stöðu og það er kannski ekki skrýtið þó að ung þjóð eins og Íslendingar taki meiri lán en gamlar þjóðir sem samanstanda af eldra fólki úti í Evrópu.

Rugl í bönkunum? Nei, ég held að það sé ekki neitt rugl í bönkunum. Hv. þm. Jón Gunnarsson var að ræða um það. Hann var líka að hafa áhyggjur af stöðu útflutningsatvinnugreinanna en það vill þannig til að spá bankanna og spá fjármálaráðuneytisins fer ágætlega saman, kannski sérstaklega í þessum efnum þar sem bæði Íslandsbanki og Landsbankinn spá mjög svipaðri stöðu gengisvísitölunnar á næsta ári eins og fjármálaráðuneytið gerir. Á þeim grunni má því vænta þess að staða útflutningsatvinnuveganna vænkist mjög á næsta ári en óneitanlega hafa þeir þurft að taka á sig ýmislegt til að laga að sig nýjum aðstæðum.

Það er hins vegar dálítið dapurlegt þegar hv. mjög þingreyndir menn leggja það sérstaklega fyrir sig að snúa út úr orðum hæstv. forsætisráðherra og gera lítið úr því sem ríkisstjórnin er að gera í efnahagsmálum og tala um að hún hafi ekki áhuga á þeim málaflokki. Því fer víðs fjarri. (Forseti hringir.) Hún er að vinna mjög kröftuglega að því að styrkja stöðu þjóðarinnar í efnahagsmálum.