132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[14:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að ræða stöðuna eins og hún er í stað þess að dregin sé upp mjög óraunsæ glansmynd. En þegar hlýtt er á hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur finnst mér hún draga upp mjög einhliða mynd af íslensku efnahagslífi, mikla glansmynd þar sem allt er betra nú en það var áður. Ég spyr því: Til hvaða tíma er hv. þingmaður að vitna? Er verið að vitna til þess tíma sem Steingrímur Hermannsson sá um efnahagsmálin eða hvað eru menn að tala um? Eins er mjög einkennilegt að hlýða á hæstv. fjármálaráðherra, sem fyrir viku var sjávarútvegsráðherra, en virðist nú hafa gleymt því að þá bjó hann til skýrslu sem mikil vinna var lögð í þar sem farið var yfir gengismál íslensku krónunnar. Nú er hann kominn í annað starf og þetta virðist ekki vera neitt áhyggjuefni í dag en hefur örugglega verið það fyrir viku.

Eins og áður segir var dregin upp glansmynd og hæstv. forsætisráðherra virðist ekki ætla að fara í neinar aðgerðir heldur láta Seðlabankann einan um að slá á þensluna með vaxtahækkunum og einungis í morgun voru gefin út erlend skuldabréf í íslenskum krónum fyrir 3 eða 4 milljarða. Í allt hafa þessir háu vextir valdið því að inn streyma milljarðar í viku hverri, tugir milljarða. Það er eins og þetta sé ekkert mál. Gengi íslensku krónunnar hækkar og staða sjávarútvegsins versnar en það er eins og allt leiki í lyndi hjá ríkisstjórninni.