132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:33]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir niðurlagsorð hæstv. forsætisráðherra en ég óskaði eftir andsvari vegna þess að mig langar að vita — það gæti skýrt umræðuna þegar á líður — hvað er á ferðinni í raun og veru. Erum við að tala um fjárlög? Erum við að tala um framtíðarfjárlög? Erum við að tala um Landssímafjárlög eða erum við að tala um fjáraukalög? Erum við í reynd að tala um að þingið sem kosið verður 2007 verði að einhverju leyti svipt fjárstjórnarvaldi sínu? Erum við að tala um að stefna þessarar ríkisstjórnar skuli ná yfir 2–3 kjörtímabil í viðbót eða hvað erum við að tala um?

Í niðurlagi frumvarpsins segir, í athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu: „Fyrirhugað er að sækja um útgjaldaheimildir í fjáraukalögum 2005 og fjárlögum áranna 2007–2012 ...“ Eins og ég skil þetta mál er um frumvarp til laga að ræða sem síðar þarf að leita sérstakra heimilda fyrir í fjárlögum framtíðarinnar. Mig langar þess vegna til að kalla eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra hvernig hann skilur þetta frumvarp og hvert gildi það hafi.