132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá tel ég að að samþykktu þessu frumvarpi sé það bindandi. Mér þykir afar ólíklegt að menn fari að breyta því síðar. Ef einhver slíkur vilji er fyrir hendi þá vænti ég þess að hann komi skýrt fram við meðferð málsins. Vilji t.d. þingmenn Samfylkingarinnar gera þetta öðruvísi, ekki ráðstafa fjármagni til hátæknisjúkrahúss eða einhvers annars, þá verður það að koma fram við umfjöllun málsins. En ég tel að málið sé þess eðlis að mér finnst það frekar ólíklegt.

Það var miðað við að fénu yrði ekki ráðstafað til rekstrar heldur í fjárfestingar til framtíðar. Það er kjarninn í þessu frumvarpi. Ég vænti þess að um það geti náðst rík samstaða á Alþingi og tel það mjög mikilvægt.