132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því að allir væru mjög ánægðir með þessa ráðstöfun, sölu Símans o.s.frv. Ég minni á að á milli 70 og 80% þjóðarinnar var andvígur sölu á grunnkerfi Símans fram á síðasta dag samkvæmt skoðanakönnunum. Meira að segja eftir að Síminn var seldur og loforðalistinn kom fram voru menn enn óánægðir með söluna.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Finnst honum það eðlileg viðbrögð, og í takt við það sem hann og aðrir bjuggust við, að eitt fyrsta verkið var að loka starfsstöðvum Símans á Blönduósi og Siglufirði og láta að því liggja að í farvatninu væru frekari lokanir? Þar er ekki samkeppninni fyrir að fara til að tryggja þjónustu. Finnst hæstvirtum ráðherra þetta allt í lagi?