132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hæstv. forsætisráðherra sé aðeins of fljótur á sér þegar hann hrósar happi yfir því hve einkavæðingin á Símanum hafi tekist vel. Ég tel að það ferli sé í raun aðeins að byrja og þetta frumvarp sé til marks um það. Nú stendur upp á okkur hvernig við ætlum að verja þeim fjármunum. Það verður líka gaman að fylgjast með því hvernig Símanum reiðir af í höndum hinna nýju eigenda. Það er að mínu mati partur af einkavæðingarferlinu.

En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hafi hugsað fyrir því hvernig hún ætli að innheimta vegtolla af síðari hluta Sundabrautar. Fram hefur komið að það eigi að verða einkaframkvæmd. Ég veit ekki betur en að varðandi Hvalfjarðargöngin sé áskilið að bannað sé að innheimta vegtolla á svæðinu frá syðri hluta Hvalfjarðarganga til Reykjavíkurhafnar á þeim tíma sem enn eru innheimt veggjöld af Hvalfjarðargöngum. Það væri fróðlegt að fá að heyra af því.