132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að spyrja eftir því sama og hv. síðasti ræðumaður gerði og ég tek eftir því að hæstv. ráðherra veitti honum ekki andsvar í síðara sinni sem hann gat þó gert. Ég tel að þarna sé mjög undarlega að verki staðið. Menn taka ákvarðanir um að fara í einkaframkvæmd, lýsa því yfir og setja það í skýringar með lagatexta að það eigi að gera án þess að hafa upplýsingar um með hvaða hætti standa eigi að þessum málum. Er það virkilega ætlunin að sama fólkið og á að afhenda Hvalfjarðargöngin skuldlaus til ríkisins eftir 20 ára rekstur eigi að borga þessa vegaframkvæmd líka? Ég held að menn hljóti að geta svarað þessari pólitísku spurningu. Ætla menn í þessa göngu svona? Það er gersamlega óviðunandi að menn standi þannig að málum. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að geta svarað því hvort vilji hans standi til þess.