132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:48]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki eins og verið sé að ræða þessi mál í fyrsta sinn núna. Það er búið að margræða þetta við hæstv. samgönguráðherra á undanförnum missirum og árum og þetta hefur margoft komið til umræðu á hv. Alþingi. Svo mætir ríkisstjórnin með lagafrumvarp í þinginu og þá eru ekki svör við þessum spurningum. Hæstv. ráðherra segir bara: Við erum að vinna í málinu. Það er ágætt ef skýringarnar fást áður en menn afgreiða málið út úr nefnd. (Forsrh.: Vill ekki þingmaðurinn viðra sína skoðun?) Mín skoðun hefur alltaf legið fyrir. Það er ekki hægt að bjóða upp á að sumir landsmenn séu látnir borga fyrir að nýta umferðarmannvirki langt fram yfir aðra. Það er ekki upp á það bjóðandi þegar menn keyra frítt í gegnum ný göng annars staðar á landinu að menn haldi áfram að borga í göng á hinum stöðunum og það verði boðið upp á að sömu landsvæðin verði skattlögð fyrir aðgang að höfuðborginni ef þau liggja norðan megin að henni en menn borgi ekki neitt þegar þeir koma að sunnan.