132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:50]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þau verkefni sem hér er lagt til að ráðist verði í á næstu árum eru öll góðra gjalda verð, mjög áhugaverð verkefni og mikilvægt að í þau verði ráðist. Vel má vera að menn kynnu að hafa forgangsraðað þessum verkefnum á annan hátt ef aðrir hefðu komið að þessu enda mýmörg verkefni sem ráðast má í í samfélaginu sem horfa öll til framfara. Ég leyfi mér að fullyrða að þau verkefni sem hér er lagt til að ráðist verði í á næstu árum horfa öll til framfara. Ég get hins vegar tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hjá tveimur þingmönnum að það er verðugt umhugsunarefni hvort það muni skipta sköpum í framtíðinni hvaðan af landinu menn koma til höfuðborgarinnar, hvort menn þurfa að greiða fyrir það eða ekki. Við hljótum einnig að velta því fyrir okkur hvernig á því standi að til að mynda tvöföldun Suðurlandsvegar er ekki á þessum forgangslista, sem hér er verið að dreifa fjármunum í. Án efa má víða finna verkefni sem aðrir hefðu viljað sjá inni en eru ekki í þessum potti. En gott og vel. Verkefnin eru öll áhugaverð, ég geri ekki lítið úr því. Í þessu samhengi má geta þess að þingmenn Samfylkingarinnar voru fyrstir til að leggja fram þingsályktunartillögu um að ráðist yrði í byggingu hátæknisjúkrahúss í Reykjavík. Hér hefur því einnig verið farið í smiðju stjórnarandstöðunnar og það er vel.

Það sem er kannski umhugsunarvert, og það sem stendur upp úr að þessum orðum sögðum, er að það liggur í reynd ekkert fyrir hvers konar plagg hér er á ferðinni. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því aðspurður að hér væri um einhvers konar þingsályktunartillögu eða stefnuyfirlýsingu þingsins til framtíðar að ræða og við hljótum að spyrja okkur: Af hverju á þetta þing, af hverju á það þing sem nú situr, að taka fram fyrir hendurnar á því þingi sem verður kjörið 2007? Af hverju á þetta þing að taka fram fyrir hendurnar á þeirri ríkisstjórn sem þá mun sitja? Það hljóta að vera spurningar sem við veltum fyrir okkur og í öðru lagi hljótum við einnig að velta fyrir okkur þeirri spurningu hvort eðlilegt er, eða hvort það gengur einfaldlega upp, að leggja þetta frumvarp fram í lagaformi við hliðina á fjárlögum og ætlast síðan til þess að fjárlög kveði á um þessar heimildir á hverju einasta ári. Þeir sem til þekkja vita að fjárlög breyta ekki almennum lögum og það er mikilvægt að þessi atriði séu á hreinu upp á framtíðina að gera. Með því að leggja þetta fram með þessum hætti gætu menn skapað svo miklar væntingar, sem hefur stundum verið kallað lögmætar væntingar, um að ráðist verði í ákveðin verkefni að það kunni að valda ríkinu bótaskyldu á síðari stigum ef fallið verður frá þeim að einhverju leyti. Þar af leiðandi er mjög áhugavert að velta þessu upp í umræðunni. Ég man ekki til þess að sérstök lög hafi verið sett um ráðstöfun fjármuna svo langt fram í tímann. Við höfum vitaskuld samgönguáætlanir og ýmsar aðrar áætlanir, sem reyndar hefur verið breytt frá ári til árs eftir því hvernig vindar hafa blásið, en ég man ekki eftir því að þetta hafi verið sett í lög með þessum hætti.

Það kunna hins vegar að vera ýmis sjónarmið fyrir því að gera það vegna þess að það kann að skapa mikla óvissu í efnahagslífinu ef jafnmiklir fjármunir liggja fyrir. Eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það ágætlega þá ríkir óvissa um í hvaða farveg þeir munu renna. Því vegast margvísleg sjónarmið á í umræðunni en við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða rétt það þing sem nú situr hefur til þess að taka fram fyrir hendurnar á þingum sem koma til með að sitja í framtíðinni. Í stjórnarskránni er kveðið á um að menn skuli ráðstafa fjármunum eitt ár fram í tímann en það er ekki bannað að gera það til lengri tíma. En aðeins er gert ráð fyrir að fjárlög gildi til eins árs.

Það er einnig athyglisvert að skoða þetta í sögulegu samhengi því að eins og hér hefur komið fram hafa margir upplifað þetta sem tilskipanir ráðherra langt fram í tímann um það hvernig þessum fjármunum skuli eytt. Það hefur oft verið skilgreint á þann veg að fjárstjórnararéttur þingsins sé í raun og veru lyklavöldin að þjóðarbúinu og því sé að sumu leyti verið að taka þessi völd af þinginu á þeim þingum sem eiga eftir að sitja á komandi árum. Þetta þarf vissulega að hafa í huga.

Það er kannski einnig vert í þessu samhengi af því að ég er að velta fyrir mér hvað er hér á ferðinni, þ.e. hliðarfjárlög, fjáraukalög, langtímafjárlög, samgönguáætlun, þingsályktunartillaga. Það tók þingin í Evrópu langan tíma, jafnvel breska þingið tvær aldir, að ná þeim völdum til sín að fara með annars vegar skattlagningarvald og hins vegar að geta ráðið útgjöldum ríkisins. Í sögulegu samhengi eru það því athyglisverðar spurningar sem vakna þegar málin eru sett fram á þann hátt sem hér er gert.

Í Evrópu hafa á undanförnum árum m.a. verið kveðnir upp dómar hjá Evrópudómstólnum þar sem menn hafa getað byggt rétt á því sem hefur verið kallað lögmætar væntingar, þ.e. ef breytingar verða svo miklar á umhverfi manna að þeir hafa ekki getað gert ráð fyrir því þá eigi þeir í raun og veru rétt á bótum frá íslenska ríkinu. Reyndar eru fordæmi fyrir slíkum niðurstöðum hjá íslenskum dómstólum. Fyrir um 40 árum þegar minkaeldi var bannað gat einstaklingur sem hafði nýverið reist slíkt bú byggt rétt á því og fengið bætur sökum þess að hann gat ekki séð það fyrir að umhverfinu yrði breytt jafnskjótt og raun bar vitni. Þær lögmætu væntingar sem þingið og löggjafinn skapa með svona yfirlýsingum kunna á síðari stigum að gera mönnum mjög erfitt um vik að breyta frá því sem áður hefur verið ákveðið. Það er þetta sem ég hef í huga þegar ég velti upp þeirri spurningu hvort það þing sem nú situr hafi sérstakt umboð frá kjósendum til að taka fram fyrir hendurnar á því þingi sem kann að sitja eða vera kosið 2007, ríkisstjórn sem þá situr o.s.frv. Það er mikilvægt að menn velti þessu fyrir sér vegna þess að eins og kom fram í andsvari hæstv. forsætisráðherra þá liggur ekki alveg ljóst fyrir hvers konar yfirlýsing hér er á ferðinni. En þetta er a.m.k. lagt fram sem frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands. Þar af leiðandi er þetta lagt fram í sérstöku lagaformi sem ekki verður breytt með fjárlögum en gert er ráð fyrir því í athugasemdum að síðan þurfi að fjalla sérstaklega um þessi útgjöld í fjárlögum. Væntanlega mun fjárlaganefnd að einhverju leyti fjalla um þessar spurningar og skoða hvort hér sé þannig um hnútana búið að það fái að öllu leyti staðist.

Ég hlýt einnig að velta upp þeirri spurningu, og vonast eftir svari hæstv. forsætisráðherra við henni, hvort þeim fjármunum sem hér um ræðir, 66,7 milljörðum kr., verði haldið sérstaklega aðgreindum frá öðrum fjármunum ríkissjóðs á komandi árum. Eða er um að ræða ákveðið hlutfall eða hluta úr ríkissjóði sem renni til þessara verkefna? Það kann einnig að skipta máli í framtíðinni hvort menn hafi einhverja möguleika á að breyta þessu eða setja fjármuni í önnur verkefni án þess að bótakröfur kunni að rísa. Að sjálfsögðu er það þannig að ef þingið samþykkir viljayfirlýsingu í þessum farvegi þá gerir fólk ráð fyrir því að það muni verða að veruleika. Það er ekki óeðlilegt að menn geri ráð fyrir því. Það er spurning hvort ástæða sé til þess að þessum fjármunum verði haldið sérstaklega aðgreindum frá öðrum fjármunum ríkissjóðs.

Það kemur einnig fram í frumvarpinu sem hér liggur fyrir að ætlunin er að stofna a.m.k. tvo sjóði, þ.e. leggja til 1 milljarð kr. í Nýsköpunarsjóð og síðan 1,5 milljarð kr. í viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild í stofnun nýrra samlagssjóða, með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Ég held að það mundi skipta miklu máli fyrir þingið, áður en það afgreiðir þetta mál, að það liggi fyrir hvernig þessir sjóðir verða upp byggðir. Verður stjórn yfir þeim? Hvernig verða þær skipaðar og hvernig á að ráðstafa þessum fjármunum? Þetta skiptir ekki síður máli varðandi fjarskiptasjóð sem ætlunin er að koma á laggirnar, þ.e. að leggja 2,5 milljarða kr. til nýs fjarskiptasjóðs sem hafi það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála, m.a. er ætlað að ráðstafa einum milljarði í það verkefni á árinu 2005.

Ég held að það væri ábyrgðarhlutur af hálfu þingsins að afgreiða þetta mál áður en fyrir liggur hvernig með fjármunina verði farið, hvernig þeim verði úthlutað og betur skilgreint í hvaða verkefni þessir fjármunir eiga að fara. Ég tel afar erfitt að hleypa hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr, út með 2,5 milljarða kr. upp á vasann án þess að hún hafi nokkur nánari fyrirmæli um hvernig eigi að verja þeim fjármunum og hvernig með þá skuli farið. Það væri hollt og gott fyrir afgreiðslu þessa máls, áður en til afgreiðslu þess kemur, að fyrir lægi einhvers konar stofnsamþykkt um hvernig áðurnefndir sjóðir komi til með að líta út, hvernig þeir muni ráðstafa fjármunum sínum og ekki síður hvernig eignum þeirra verði ráðstafað. Verður um að ræða eignir sem verði leigðar fjarskiptafyrirtækjum? Eða hvernig hyggjast menn vinna þessa hluti?

Ég tel mikilvægt að menn hugsi þetta alla leið áður en málið verður afgreitt í þinginu. Hér virðist hins vegar um að ræða einhvers konar sambland af þingsályktunartillögu, viljayfirlýsingu og heimild til að ráðstafa fjármunum. Þá er þetta reyndar farið að líta út eins og — ég veit ekki hvað ég á að kalla það — pólitískur gambítur eða að menn séu að draga pótemkíntjöld fyrir það sem máli skiptir. Ég held að það sé afar mikilvægt að hið háa Alþingi fari vandlega yfir málið og viti nákvæmlega hvað er á ferðinni áður en það verður afgreitt endanlega.

Hér hefur verið nefnt að um nýja leið sé að ræða. Ég man a.m.k. ekki eftir því að svona langtímaútdeiling fjármuna hafi átt sér stað í lögum. Hér er um nýja leið að ræða og menn verða þá að vita hvað hún hefur í för með sér, hvernig menn ætla að vinna þetta, að það sé nákvæmlega njörvað niður hvernig menn hugsa þessa sjóði og hvernig þeim er ætlað að vinna í framtíðinni. Það mun best að tryggja það svo (Forseti hringir.) ekki spinnist af því deilur á síðari stigum.