132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:09]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá liggur líka fyrir að hér er brotið í blað hvað það varðar að þing á hverjum tíma telur sig hafa til þess heimildir að ráðstafa fjármunum langt inn í framtíðina, geti það sett tiltekið fjármagn í tiltekinn sjóð og tekið þá ákvarðanir langt fram í tímann þannig að það verði skuldbindandi fyrir alla, skuldbindandi fyrir komandi þing, skuldbindandi fyrir komandi ríkisstjórnir o.s.frv. Hér er í raun brotið í blað og ákveðið að fara nýja leið. Það er ekki óeðlilegt að menn ræði það í þaula hvort það þing sem nú situr hafi í raun heimild til að grípa fram fyrir hendurnar á þeim þingum sem kunna að verða kosin síðar, þeim ríkisstjórnum sem kunna að taka við o.s.frv. Það er eðlilegt að þetta sé rætt.

Ég hins vegar fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur a.m.k. skýrt sitt sjónarmið í þessu máli. Hann lítur svo á að þetta sé heimilt og það er gott að sú yfirlýsing liggur fyrir.