132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:20]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns. Það eru til lög um Nýsköpunarsjóð þannig að þær reglur liggja alveg fyrir hvernig fjármagni er úthlutað. En spurningin hjá mér snerist um hvort þingmaðurinn er hlynntur langtímaáætlunum eða ekki. Málið snýst um hvort við ætlum að láta reka á reiðanum, hv. þingmaður, eður ei. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að hann teldi að með því að ráðstafa fénu eins og það er gert núna til lengri tíma mundi það skapa væntingar. Ég hefði einmitt haldið það þveröfuga. Ef það hefði ekki verið gert, ef ekki hefðu verið gerðar þessar langtímaáætlanir þá fyrst hefðu nú væntingar vaknað hjá hinum og þessum því ekki vantar hugmyndirnar í samfélaginu um hvernig á að ráðstafa fénu.

Ég tel því að sú aðferðafræði sem hér er lagt upp með muni einmitt verða til þess að ákveðin sátt skapast í samfélaginu um hvernig þessum fjármunum verði varið en ekki að vekja óþarfa væntingar.