132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu er fljótsvarað vegna þess að það liggur fyrir að þetta er viðbótarfjármagn. Þegar stefnumótunin var mörkuð hvað varðar langtímaáætlun í ríkisfjármálum og ákveðið að draga saman vegaframkvæmdir miðað við vegáætlun á árunum 2005 og 2006 var ekki vitað að þetta fé yrði til ráðstöfunar. Þá var talað um að draga saman 2005 og 2006 en bæta við 2007 og 2008 og það stendur auðvitað.

Það er hins vegar ekki rétt með farið hjá hv. þingmanni að tala um þennan samdrátt frá vegáætlun sem sérstakan niðurskurð 2005 og 2006 vegna þess að framkvæmdir hafa aldrei verið meiri en núna. Það er enginn samdráttur í vegaframkvæmdum um allt land eins og við vitum, en það eru minni framkvæmdir en ýtrasta samgönguáætlun gerði ráð fyrir.

Svarið er að þetta eru óháð mál.