132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:42]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögum sem koma fram í frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands sem varða byggingu Sundabrautar vekur athygli að það liggja fyrir áætlanir um hvernig staðið skuli að áframhaldandi lagningu brautarinnar upp á Kjalarnes og kemur fram að það er í einkaframkvæmd. En þegar maður skoðar tillögurnar og ber síðan saman við áform um byggingu þjóðarsjúkrahúss, eins og hæstv. ráðherra hefur orðað það, þá liggja ekki fyrir frekari áætlanir um hvernig staðið verði að byggingu seinni hluta áfanga sjúkrahússins. Það er alveg ljóst að sú skipulagsvinna sem farið verður í á næstu mánuðum og árum mun varða allt sjúkrahúsið þangað til það verður fullbyggt. Þess vegna langaði mig að vita hvort einhverjar hugmyndir væru uppi um að standa að áframhaldandi byggingu þjóðarsjúkrahússins með svipuðum hætti og Sundabrautinnar.