132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:02]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason bregður ekki út af vananum. Hann dregur upp dökka mynd af stöðu mála og sáir fræjum tortryggni og ég vil segja vitleysu að ástæðulausu. Hann heldur því fram að stjórnvöld segi sem svo að við þessa sölu komi fjarskiptaþjónustan þeim ekki lengur við. En hvað segir hv. þingmaður um öll þau lög og reglugerðarverk sem gilda um fjarskiptaþjónustuna? Telur hann að það tryggi ekki þjónustuna? Það er auðvitað grundvallaratriðið í þessu máli að þjónustan batni og henni sé haldið uppi. Það er náttúrlega alveg deginum ljósara að tilkoma fjarskiptasjóðs sem verður stofnaður með þessari sölu mun flýta allverulega uppbyggingu fjarskiptakerfisins í landinu og stuðla að því að landsmenn allir fái bætta fjarskiptaþjónustu um allt land. Getur því hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að með þeirri aðgerð að selja Símann og nýta þessa miklu fjármuni í þeim efnum sé bara hið allra besta mál og að því beri að fagna?