132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Magnúsi Stefánssyni í því að þetta sé allt í lagi sem er að gerast á Blönduósi eða Siglufirði þar sem verið er að loka starfsstöðvum Símans strax á fyrstu dögum nýs fyrirtækis. Ég er ekki sammála honum í því að þetta sé allt í lagi og sjálfsagt og gott. (MS: Sagði ég það?) Hv. þingmaður lét að því liggja að það sem væri að gerast væri allt saman mjög gott og þetta er það sem blasir við þessu fólki og ekkert annað. En mörg þessara verkefna hafa verið vanrækt á síðustu árum og til þeirra verður að leggja fjármagn og það er gott og blessað. En varðandi að það hafi verið stofnað til fjarskiptasjóðs. Jú, gott og vel, það er stofnað til fjarskiptasjóðs, það er reynt að bjarga í horn. En þá er ríkið aftur komið með ríkisrekin fjarskipti í gegnum fjarskiptasjóð og þá hefði verið betra að Landssíminn hefði þetta.