132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mesti þjóðararður af því að eiga Símann er að geta skaffað örugga, ódýra og öfluga fjarskiptaþjónustu sem kemur bæði íbúum og atvinnulífi til góða um allt land. Það er mesti arðurinn sem við getum haft af því að eiga svona fyrirtæki og það hefðum við getað gert ef við hefðum átt það.

Varðandi vegaframkvæmdirnar sem hv. þingmaður minntist á, þá er það jú gott og blessað. En ef við hefðum verið fyrirtæki þá hefðum við alveg eins getað slegið lán út á Símann, átt hann og hirt arðinn, og fengið arðinn aftur í ríkissjóð. Mér finnst hv. þingmaður skauta létt yfir, því lokunin á starfsstöð Símans á Blönduósi og Siglufirði er bara upphafið að því sem við getum átt í vændum enda kom framkvæmdastjóri Símans að því að leitað yrði eins mikillar hagræðingar í rekstri fyrirtækisins og kostur væri og það þýðir yfirleitt að starfsstöðvum úti um land verði lokað.