132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:07]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands, mál sem hefur verið mikið hitamál í þjóðfélaginu um margra missira skeið. Þar sem ég stend hér sem fulltrúi flokks míns í þessum umræðum þá vil ég fyrst lýsa því yfir að minn flokkur hefur í sjálfu sér aldrei verið andvígur sölu Landssímans en hins vegar höfum við varað við því að grunnnetið yrði selt með Símanum og ég vil nota tækifærið til að minna á stjórnmálayfirlýsingu frá landsþingi Frjálslynda flokksins frá því í mars á þessu ári þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Frjálslyndi flokkurinn lýsir því hér með yfir að hann er alfarið á móti einkavæðingu Símans með dreifikerfinu eins og ríkisstjórnin boðar. Fyrirtækið veitir samfélagsþjónustu og ríkinu ber að eiga og reka dreifikerfið og tryggja jafnt aðgengi fyrirtækja.“

Nú er það svo að Síminn hefur verið seldur og það er staðreynd sem við hljótum að búa við. Dreifikerfið var selt með honum. Við hljótum þá, frú forseti, að treysta því að þeir aðilar sem keyptu Símann verði traustsins verðir og reki fyrirtækið áfram með öflugum hætti. Í raun og veru hef ég enga ástæðu til að efast neitt um það, við treystum því að þeir ágætu menn geri það og tryggi jafnan aðgang allra landsmanna að dreifikerfinu.

Þegar litið er síðan á frumvarpið sem nú liggur fyrir til umræðu er í sjálfu sér erfitt að bera neitt mikið á móti því. Ég er sammála því að þau atriði sem talin eru upp í frumvarpinu, þær framkvæmdir sem talað er um að fara eigi í eru allt saman þjóðþrifamál, framkvæmdir sem ég held að flestir Íslendingar hljóti að geta tekið undir að sé hið besta mál. Hins vegar er það þannig þegar maður skoðar frumvarpið, les það og les athugasemdir við það, þá vakna ýmsar spurningar og að manni læðist sá grunur að ríkisstjórnin hafi kannski ekki ígrundað alveg nógu vel hvernig við ættum að fara í að ráðstafa þessum fjármunum. Það er að sjálfsögðu vandasamt verk. Þetta eru miklir fjármunir og mjög mikið í húfi og eins og ég sagði áðan í andsvari við hæstv. forsætisráðherra þá tel ég að sú vegferð sem við erum að fara í núna með því að verja þessum fjármunum sé líka hluti af einkavæðingarferli Landssímans og hér sé í raun og veru að hefjast kafli nr. 2 í þessu ferli öllu saman.

Okkur í stjórnarandstöðunni er að sjálfsögðu sönn ánægja að hjálpa ríkisstjórnarflokkunum við að mynda stefnu um hvernig eigi að verja þessum peningum og aðstoða þá við að komast að brúklegri niðurstöðu um hvernig fara eigi í þetta, m.a. benda þeim á annmarka sem virðast vera á því hvernig þeir hafa hugsað sér að eyða þeim og líka hvaða afleiðingar margt af því sem þeir hyggjast gera við peningana og þá er ég að tala um framkvæmdir, t.d. hvaða afleiðingar það hlýtur að hafa í þjóðfélaginu. Sumar af þessum framkvæmdum hljóta a.m.k. að kalla á lausnir annars staðar og á öðrum sviðum. Mig langar til að fara aðeins í þessi atriði hér og nú.

Eins og ég benti á í andsvari mínu við hæstv. forsætisráðherra áðan þá er eins og ekki hafi alveg verið hugsað fyrir því hvernig lokið verði við lagningu Sundabrautar. Í frumvarpinu kemur fram að með sölu Símans losni fé til að setja 8 milljarða í það verkefni en hins vegar dugir það ekki nema hálfa leið. Seinni hluti framkvæmdarinnar upp á Kjalarnes, síðari áfangi verksins, á að fara í einkaframkvæmd sem áætlað er að kosti á bilinu 6–8 milljarða og á að vera lokið árið 2011. Þangað til eru ekki nema 6 ár.

Eins og ég benti á áðan eru nú þegar fyrir hendi mannvirki á svæðinu fyrir norðan Reykjavík þar sem í dag eru innheimtir vegtollar, hér er ég að tala um Hvalfjarðargöngin. Í umræðum um Hvalfjarðargöngin á Alþingi í fyrrahaust benti fyrrverandi samgönguráðherra hv. þm. Halldór Blöndal þingmönnum á að ef menn ætluðu að fara út í að leggja nýja Sundabraut þá væri fyrir hendi samningur við fyrirtækið Spöl, sem á og rekur Hvalfjarðargöngin í dag, sem kvæði á um að óheimilt væri að innheimta vegtolla af vegamannvirkjum á leiðinni, að mig minnir frá suðurenda Hvalfjarðarganga að Reykjavíkurhöfn. Nú geri ég ráð fyrir því að þetta sé rétt hjá hv. þm. Halldór Blöndal. Hann var samgönguráðherra þegar samningurinn var gerður og ætti því að vita hvað hann er að tala um. Fyrst svona er í pottinn búið þá fæ ég ekki séð að hægt verði að fara út í síðari hluta Sundabrautar með vegtollum nema málið verði leyst, þ.e. að vegtollar í Hvalfjarðargöngum verði með einum eða öðrum hætti felldir niður, að menn reyni að finna einhverja lausn þarna, einhverja lendingu og það væri mjög fróðlegt að fá að heyra útlistun ríkisstjórnarinnar á því hvernig hún hyggst leysa þennan hnút sem mér sýnist blasa við.

Hitt er svo annað að ef sett verða veggjöld á síðari hluta Sundabrautar, spottann um Álfsnes og upp á Kjalarnes, þá erum við komin með vegtolla á vegbút sem er innan höfuðborgarsvæðisins því í dag teygir höfuðborgin sig alla leið upp á Kjalarnes. Ég hygg að þetta gæti orðið svolítið flókið í framkvæmd því þá værum við í raun og veru komin með vegtoll á mannvirki sem liggja milli borgarhverfa. Slíkt gæti skapað miklar deilur og úlfúð og hætt er við að ansi mikill hávaði og læti væru höfuðborginni í dag ef við hefðum til dæmis vegtolla sem bitnuðu hvað harðast á íbúum Vesturbæjar eða íbúum Hlíða, ef þeir þyrftu að búa við slíka skattlagningu til að komast til og frá heimilum sínum.

Ég hygg, frú forseti, að við þurfum að skoða málið betur og ígrunda hvernig eigi að leysa þetta. Viljum við setja á vegtolla innan borgarmarkanna? Fáist það í gegn, er þá réttlætanlegt að þeir íbúar sem nota Hvalfjarðargöngin hvað mest í dag, bæði höfuðborgarbúar — gleymum ekki því að þeir nota göngin mjög mikið — og þeir sem búa á svæðunum norðan Hvalfjarðar séu látnir borga tvöfalda vegtolla ef þeir ætla að komast norður fyrir höfuðborgina? Ég hefði gjarnan viljað sjá einhverju af þeim fjármunum sem nú koma inn fyrir sölu Símans varið til að greiða upp Hvalfjarðargöngin og ríkið yfirtæki rekstur þeirra. Í staðinn hefði minni upphæð verið varið til að greiða niður erlendar skuldir. Þeim peningum hefði hreinlega verið varið til að greiða Hvalfjarðargöngin og þar með hefði málið verið leyst.

Það er ekkert vandamál að réttlæta að ríkið yfirtaki rekstur ganganna. Göngin hafa sannað sig sem gríðarlega mikilvægt og gott mannvirki. Það hefur sparað ríkinu stórar fjárhæðir, m.a. í viðhaldi á veginum fyrir Hvalfjörð. Það hefur sparað flutningsleiðir og síðast en ekki síst sparað mannslíf og forðað okkur frá slysum og hörmungum. Ég held að enginn efist um það í dag að þetta hafi verið góð fjárfesting, m.a. góð fjárfesting til að jafna þann mikla aðstöðumun sem er að myndast á milli svæðanna fyrir austan fjall og á Reykjanesskaga og síðan svæðanna fyrir norðan Hvalfjörð. Við sjáum að svæðin fyrir austan fjall og á Reykjanesskaga njóta mikilla og góðra vegaframkvæmda, sem ég lasta ekki, en þær framkvæmdir eru allar greiddar úr ríkissjóði. Framkvæmdir á vegamannvirkjum á svæðum fyrir norðan höfuðborgarsvæðið eru síðan háð vegtollum. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt fyrir okkur íbúa landsins, að við mismunum landshlutum með þessum hætti. Landshlutarnir og svæðin umhverfis höfuðborgina eiga að geta lifað saman í sátt og samlyndi á jafnréttisgrundvelli. Nóg um það.

Mig langaði til að koma að öðru en það varðar byggingu hátæknisjúkrahússins. Mér finnst að sú góða framkvæmd hljóti að vekja upp spurningar um hvað við ætlum við að gera við Reykjavíkurflugvöll. Ætlum við að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni? Við þurfum að svara þeirri spurningu: Er ekki nauðsynlegt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni ef við ætlum að hafa hér hátæknisjúkrahús? Eða er hægt að flytja flugvöllinn og hafa hátæknisjúkrahús landsmanna á Vatnsmýrarsvæðinu? Þurfum við flugvöll í tengslum við þetta sjúkrahús eða ekki?

Varðandi varðskipið og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna þá held ég að við þurfum að svara því hvernig við ætlum að fjármagna bæði kaup og rekstur á varðskipi og flugvél. Ætlum við að leigja þessi tæki? Við þurfum á þessum tækjum að halda. Ætlum við að leigja þau í framtíðinni og getum við tryggt nægt fjármagn til að reka þessi tæki með sómasamlegum hætti í framtíðinni?

Frú forseti. Við eigum í raun í miklu basli með að reka Landhelgisgæsluna. Við eigum líka í miklu basli með að reka skip Hafrannsóknastofnunar. Ég hygg að við þurfum að hugsa þau mál til enda, án þess að ég kasti á nokkurn hátt rýrð á að peningum sé varið til að efla Landhelgisgæsluna. Það er löngu kominn tími til þess.

Varðandi uppbyggingu á símakerfi umhverfis landið, uppbyggingu á fjarskiptum, þá er það mjög þarft og gott verkefni. Það er mjög brýnt að komið verði á GSM-farsímasambandi sem víðast allt í kringum landið. Ég tel að mikil og alvarleg hætta stafi af því að höfum á allt of mörgum stöðum, t.d. á hringveginum, stór svæði þar sem GSM-samband er mjög slæmt og jafnvel ekki fyrir hendi. Á sama tíma hnignar NMT-farsímakerfinu. Það er farið að reynast erfitt að fá NMT-síma og fáir sem eiga slíka síma í dag. Þetta býður hættunni heim því að ef það verða slys á þjóðvegum eða annað slíkt þá er fólk mjög háð því að geta komist í síma. Allir eiga GSM-síma í dag þannig að við sjáum í hendi okkar að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Það er í raun óþolandi að ferðast um landið og líða, í hvert sinn sem maður dettur inn í GSM-samband, eins og maður sé geimfari að koma inn í gufuhvolfið á nýjan leik.

Ég ætla svo sem ekki að segja mikið fleira að sinni, frú forseti, enda er ræðutími minn senn á þrotum. En ég vona að þær spurningar sem ég hef velt upp kveiki á perunni hjá nefndarmönnum sem nú sitja í fjárlaganefnd. Mér skilst að þetta frumvarp eigi að fara þangað og ég vona svo sannarlega að þeir velti þeim fyrir sér. Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að við vöndum til verka við að að verja þessum fjármunum og að það verði gert af fullri einurð og alvöru, þótt þetta sé náttúrlega ekki nema lagafrumvarp og ríkisstjórnir framtíðarinnar geti hugsanlega breytt lögunum, ákveðið það að verja peningunum á annan hátt.

Við þekkjum af reynslunni að það getur verið varhugavert að treysta loforðum stjórnmálamanna um ákveðnar vegaframkvæmdir. Við sjáum að vegáætlun hefur á undanförnum árum verið notuð sem eins konar hagstjórnartæki. Ríkisstjórnin hefur oft freistast til þess að blása í belginn en síðan tappa af honum eftir hentisemi þegar menn hafa þurft að nauðlenda hagkerfinu. Við skulum sannarlega vona að það verði ekki raunin með frumvarpið sem hér liggur fyrir. Eins og ég sagði í upphafi máls míns eru þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin hyggst fara út í, þótt setja megi spurningarmerki við ýmsar þeirra, hin bestu mál, þjóðþrifamál.