132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Athugasemd.

[10:41]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Menn gera sér grein fyrir hversu alvarlegt ástandið er og ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að taka á þessum málum og halda fund um verklagsreglur með hagsmunaaðilum. Það verður að vera ljóst að við verðum að tryggja hér almannaheill. Ég held að skerpa þurfi ákvæði lyfjalaga og ég spyr hæstv. ráðherra: Megum við vænta frumvarps í þá veru hingað inn í þingið? Talað er hér um að lyfjainnflytjendur verði að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Það var vitað að krabbameinslyf fyrir börn mundi vanta. Það var alveg ljóst. En þeir brugðust ekki við, ekki nógu fljótt. Þetta var vitað með nokkrum fyrirvara. Svona hlutir eiga auðvitað ekki að gerast.

Svo er það annað sem varðar börnin. Það hefur einnig skort lyf í barnvænu formi, þ.e. lyf sem auðvelt er að gefa börnum, t.d. mixtúrur. Þessu hafa barnalæknar kvartað yfir og þessu þarf auðvitað líka að kippa í liðinn og tryggja að slík lyf séu til staðar. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að sjá til þess að heilbrigðis- og trygginganefnd verði upplýst um það hvernig þessum málum vindur fram. Ég vil þakka honum fyrir að hann ætlar að bregðast við og ég veit að hann gerir sér grein fyrir hversu alvarlegt það ástand er þegar lyf skortir og sérstaklega þegar um lífsnauðsynleg lyf er að ræða.