132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Athugasemd.

[10:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa það að lyfjalögin eru í endurskoðun. En ég vil taka það fram að um skyldur heildsala á þessu sviði er fjallað í reglugerð frá 1996. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í lyfjaheildsölu skulu ávallt vera til birgðir helstu lyfja sem markaðsleyfi hafa á Íslandi og lyfjaheildsalan annast dreifingu á.

Lyfjaheildsala skal útvega eins fljótt og kostur er, lyf sem ekki eru til í birgðum og veita öllum landshlutum sambærilega þjónustu.“

Sömu skyldur eru lagðar á herðar lyfsölum í lyfjabúðum. Um það segir, með leyfi forseta:

„Í lyfjabúð er skylt að hafa á boðstólum lyf sem selja má hér á landi og hafa hæfilegar birgðir miðað við ávísanir lækna, tannlækna og dýralækna sem starfa á viðkomandi svæði.“

Ákvæðin í þessu eru því alveg skýr. Lyfjalögin eru í endurskoðun en við störfum á grundvelli ákvæða sem eru alveg skýr í þessu efni. Hins vegar verð ég að segja það líka að stundum taka erlendir framleiðendur lyf af markaði í einhvern ákveðinn tíma og það þarf að bregðast við því. Til dæmis var þekkt skjaldkirtilslyf afskráð og lyf sem kom í stað þess reyndist ekki jafn vel. En lyfið var sett aftur á markað. Um getur verið að ræða ástæður sem er erfitt að ráða við. Ákvæðin í þessu eru skýr og ég vil auðvitað fylgja þeim eftir. En það sem skiptir mestu máli er að ástandið í þessum efnum lagist.

Ég segi það líka að ekki eru öll heildsölufyrirtæki undir sama hatti í þessu. En þetta er jafnslæmt fyrir því ef svona dæmi koma upp sem hér hafa verið rakin.