132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 sem er 1. mál þessa þings. Ég mun rekja helstu áherslumál ríkisfjármála og forsendur frumvarpsins. Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir næstu ár er mikilvægur hluti af fjárlagafrumvarpinu. Ekki síst þegar framkvæmdir við virkjanir og stóriðju eru í hámarki og sýnt er að verulega dragi úr þeim á allra næstu árum. Er mikilvægt við þessar aðstæður að hagstjórn verði áfram ábyrg og fylgt sömu staðfestu í ríkisbúskapnum og á undanförnum árum.

Stigvaxandi hagvöxtur hefur einkennt þjóðarbúskapinn undanfarin ár. Þannig benda bráðabirgðatölur til þess að landsframleiðslan hafi vaxið um 6,2% á síðasta ári. Horfur eru á að hagvöxtur verði einnig mikill á þessu ári, eða um 6%, en síðan taki að hægja á árið 2006 og enn frekar árið 2007. Það er því ljóst að hápunkti hagsveiflunnar verður náð fyrr en ætlað var. Mjög svo auknar stóriðjuframkvæmdir og einkaneysla hafa ráðið miklu um hagvöxtinn að undanförnu. Störfum hefur fjölgað ört og atvinnuleysi minnkað. Sú þróun mun líklega vara fram á næsta ár. Það er jákvætt og ekki síst að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur haldið áfram að aukast ár frá ári, en áætlað er að hann aukist um 12% á árunum 2004 til 2007. Þrátt fyrir hátt vaxtastig Seðlabanka Íslands frá síðari helmingi ársins 2004 er því spáð að verðbólga verði nærri 4% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á komandi árum. Við þær aðstæður er nauðsynlegt að framkalla aðhald í stjórn ríkisfjármála til að viðhalda áframhaldandi stöðugleika efnahagslífsins. Sú stefna hefur verið höfð að leiðarljósi við gerð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2006.

Mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum hafa þegar komið fram í fjárlögum tveggja undangenginna ára. Haldið hefur verið aftur af vexti samneyslu- og tilfærsluútgjalda og verulega dregið úr opinberum framkvæmdum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og í uppsveiflu áranna 2003 til 2005 jókst afgangur ríkisfjármála um tæp 5% af landsframleiðslu, sem er einn besti árangur í ríkisfjármálum OECD-ríkja á tímabilinu. Í ár er áætlað að tekjuafgangurinn verði tæplega 30 milljarðar króna sem samsvarar 3% af landsframleiðslu og er hagnaður af sölu Landssímans þá ekki meðtalinn. Þetta er 17 milljarða króna meiri afgangur en áætlað var í fjárlögum 2005 og skýrist m.a. af meiri tekjum af umsvifum á fasteignamarkaði og einkaneyslu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 14,2 milljarða króna tekjuafgangi eða sem nemur 1,4% af landsframleiðslu. Samanlagður tekjuafgangur árin 2004–2006 er því áætlaður um 44 milljarðar króna. Á útgjaldahlið ríkisfjármála er áætlað að raunvöxtur samneyslu og tekjutilfærslna ríkis og almannatrygginga verði innan við langtímamarkmið í ríkisfjármálum. Þá hefur staða ríkissjóðs styrkst til muna á árinu með stórfelldum niðurgreiðslum erlendra lána.

Í fjárlagafrumvarpinu er nú þriðja árið í röð lögð fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Slík stefnumörkun styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar og stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu eins og reyndin hefur sýnt. Helstu markmið stefnunnar í ríkisfjármálum 2006–2009 eru óbreytt frá fjárlagafrumvarpi 2005 og eru þau eftirfarandi:

Fylgt verði aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Þannig verði árlegur vöxtur samneyslu ekki umfram 2% að raungildi og tilfærsluútgjalda ekki umfram 2,5%.

Dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 2 milljarða króna árið 2006, þriðja árið í röð. Framkvæmdir verði aftur auknar um 2 milljarða króna árið 2007 og 2 milljarða árið 2008 en þar til viðbótar kemur fé í samræmi við tillögu ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

Á árunum 2006–2009 verði verulegum fjármunum varið til skattalækkana á fyrri hluta tímabilsins, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og til forgangsverkefna á síðari hluta þess.

Í þessari stefnumörkun, líkt og í fyrri langtímaáætlunum, er gert ráð fyrir að ríkisfjármálunum verði beitt með öflugum hætti til að halda aftur af innlendri eftirspurn þegar stóriðjuframkvæmdir standa sem hæst og örva hagvöxt þegar þeim lýkur. Dregið hefur verið úr framkvæmdum á vegum ríkisins og mun svo einnig verða á næsta ári. Í spá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera dragist saman um liðlega 12% á yfirstandandi ári og 15% árið 2006. Framkvæmdir verða síðan auknar á árunum 2007 og 2008 þegar hægir á hagvexti.

Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum er ekki einungis mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika í efnahagsmálum næstu árin heldur einnig fyrir framgang skattalækkunaráforma í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ný lög um það efni. Ríkisstjórnin stóð fast á því að lækka skatta hjá einstaklingum og fyrirtækjum og mun meginþungi og lokaáfangi þeirra verða árið 2007. Enn heyrast þær raddir að fresta eigi þessum aðgerðum, að þær séu ekki tímabærar og muni auka kaupmátt þegar síst skyldi. Ég vil í því samhengi benda á að í spá ráðuneytisins er gert ráð fyrir að árið 2007 vaxi einkaneysla minna en 1% sem þýðir í raun að einkaneysla á mann dregst saman milli ára. Og þetta verður þrátt fyrir skattalækkanir. Einkaneyslan hefur aukist verulega undanfarið og á árabilinu 2003 til 2006 er áætlað að hún vaxi að meðaltali um 6,6% milli ára. Einkaneysla verður því að teljast komin á hátt stig þegar hægir á í efnahagslífinu. Í langtímaspá ráðuneytisins er gert ráð fyrir að hún vaxi að meðaltali um 1,8% árin 2007 til 2010. Ég tel því að skattalækkanir nú komi á ágætum tíma til að vega á móti niðursveiflunni auk þess sem rétt er að láta heimilin njóta þess þegar verulegur tekjuafgangur er á ríkissjóði.

Til að mæta minni tekjum vegna skattalækkana verður tekjuafgangi ríkissjóðs árið 2005 að hluta ráðstafað til að greiða niður skuldir og þar með minnka vaxtabyrði á komandi árum auk þess sem greitt var inn á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Það sem eftir stendur verður ávaxtað hjá Seðlabankanum og ráðstafað þegar dregur úr umsvifum í efnahagslífinu.

Sömu sjónarmið voru höfð að leiðarljósi við ákvörðun um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans, en eins og kunnugt er lauk með sölu fyrirtækisins stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar. Eins og kom fram í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni við söluna er mikilvægt að ráðstöfun söluandvirðisins verði notað til að tryggja enn frekar jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ákveðið var að sá hluti söluandvirðisins sem greiddur var í erlendri mynt yrði notaður til að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs á árinu 2005. Með þessari ráðstöfun minnka vaxtagreiðslur ríkissjóðs sem stuðlar að meiri afgangi á ríkissjóði. Afgangur sölutekna var settur í skuldabréf Seðlabankans þar sem þær munu skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum á næstu árum. Ríkisstjórnin hefur því haldið fast við þau markmið sín að halda sölutekjunum utan hagkerfisins þar til dregur úr umsvifum.

Skuldir ríkissjóðs hafa snarminnkað á síðustu tíu árum. Þannig hafa þær nær árlega farið stiglækkandi, úr 50% af landsframleiðslu árið 1996 í 20% árið 2005. Hrein staða ríkissjóðs, þ.e. skuldir að frádregnum veittum lánum að viðbættu handbæru fé, stefnir í að lækka verulega á yfirstandandi ári og einnig árið 2006. Gert er ráð fyrir að hrein staða ríkissjóðs verði neikvæð um 5,4% af landsframleiðslu í ár og 4,8% á því næsta. Til samanburðar var hlutfallið neikvætt um 16% árið 2004. Gangi áætlanir fjármálaráðuneytisins eftir verður samanlagður tekjuafgangur ríkissjóðs árin 1999 til 2006 tæplega 100 milljarðar króna og samanlagður lánsfjárafgangur 150 milljarðar.

Í langtímaáætlun er gert ráð fyrir umtalsverðum hagvexti árið 2006 en hægari vexti árin 2007 til 2009. Nú um stundir er verulegur halli á viðskiptum við útlönd. Við því var búist enda mikill innflutningur vegna stóriðjuframkvæmdanna. Hins vegar hefur óvenju sterk króna að auki haft áhrif til að auka verulega innflutning neysluvöru og ferðalög landsmanna til útlanda. Þrátt fyrir það mun mikill viðskiptahalli óhjákvæmilega leiða til þess að krónan gefi eftir og er gert ráð fyrir að hún muni veikjast stig af stigi. Samkvæmt framreikningum er gert ráð fyrir að hagvöxtur árin 2007–2010 verði að meðaltali 2,5%. Ef þetta gengur eftir má segja að mjúk lending náist eftir uppsveifluna sem nú stendur yfir. Ástæða þess að því er spáð að ekki verði harkalegur efnahagslegur samdráttur þegar hægir á stóriðjuframkvæmdunum er meðal annars aukinn útflutningur áls og minni innflutningur í kjölfar framkvæmdanna. Að auki koma til auknar opinberar framkvæmdir á þessu tímabili sem taka mið af því að draga úr niðursveiflunni sem og skattalækkanirnar eins og áður hefur verið nefnt. Meginniðurstaðan er því sú að það muni nást að halda ágætum stöðugleika.

Framreikninga sem þessa verður að taka með nokkrum fyrirvara þegar horft er þetta langt fram á veginn. Við gerð þeirra ber að hafa í huga að íslenskt atvinnulíf stendur á sterkari fótum en oft áður. Efnahagslegt umhverfi fyrirtækja hefur batnað á síðustu árum. Breytingar á fjármála- og peningamarkaði hafa verið miklar. Eins hafa skattkerfisbreytingar eins og lækkun tekjuskatts á lögaðila haft jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja og þær breytingar sem nú standa yfir og eru fram undan varðandi lækkun skatta stuðla enn frekar að betri grundvelli fyrir rekstri þeirra. Atvinnustarfsemi er orðin fjölbreyttari og öflugri en áður var. Utanríkisverslun er einn meginaflvaki hagvaxtar og ef breytingar í hagvexti á Íslandi eru skoðaðar á síðustu öld má að jafnaði sjá að hagvöxtur fylgir í kjölfar aukins útflutnings. Meginstoð útflutnings var og er enn sjávarútvegur og því skiptir verulegu máli hve vel tókst til við skipulagsbreytingar á auðlindastjórninni. Aukin starfsemi í stóriðju, ferðaþjónustu og hátæknigreinum hefur styrkt stoðir útflutnings og dregið úr einhæfni en sjávarútvegur er þó enn undirstöðugreinin. Þessar forsendur, til viðbótar þeirri aðhaldssömu stefnu í ríkisfjármálum sem hér er gengið út frá, ættu enn frekar að stuðla að því að stöðugleiki haldist og mjúk lending náist þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur.

Herra forseti. Ég mun nú víkja að helstu þáttum fjárlagafrumvarps næsta árs. Tekjuafgangur ríkissjóðs árið 2006 er áætlaður 14,2 milljarðar króna, handbært fé frá rekstri er áætlað tæplega 11 milljarðar króna og lánsfjárafgangur 9,6 milljarðar. Áformað er að greiða niður skuldir fyrir 6,6 milljarða króna á næsta ári. Verða skuldir því greiddar niður um samtals 64,3 milljarða á tveimur árum. Lækkun tekjuafgangs á milli ára má einkum rekja til þess að spáð er að einkaneysla vaxi ekki eins mikið á næsta ári og í ár og til lækkunar tekjuskatts einstaklinga og afnáms eignarskatta sem skýrir rúmlega 8 milljarða króna lækkun tekna. Haldið hefur verið aftur af ríkisútgjöldum með ýmsum aðgerðum á gjaldahlið en auknu fjármagni verður varið til forgangsverkefna svo sem til hækkunar barnabóta, úrræða fyrir fatlaða og til eflingar rannsókna og menntunar.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006 gerir ekki ráð fyrir áframhaldandi vexti efnahagslífsins í eins miklum mæli og á yfirstandandi ári. Spá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,6% á árinu 2006, samanborið við 6% í ár. Einnig er gert ráð fyrir að verðbólga verði um 3,8% og kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 2,7%. Á þessum forsendum er áætlað að skatttekjur ríkissjóðs verði 301,4 milljarðar króna sem er svipuð fjárhæð og á yfirstandandi ári án fjármagnstekjuskatts ríkissjóðs af söluhagnaði Landssímans. Óbreyttar skatttekjur milli ára þrátt fyrir 5% hagvöxt skýrast meðal annars af lækkun tekjuskattshlutfalls einstaklinga, afnámi eignarskatta og verulega minni tekjum af stimpilgjöldum og vörugjöldum af ökutækjum. Áætlað er að heildartekjur ríkissjóðs verði 327,4 milljarðar króna eða 6,7 milljörðum króna lægri en tekjur yfirstandandi árs án eignasölu. Meginskýring þeirrar lækkunar er eins og áður sagði minni tekjur af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir og minni arðgreiðslur eftir sölu Landssímans. Á móti kemur að vaxtatekjur af innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum hækka.

Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2006 eru áætluð 313,2 milljarðar króna og hækka um 16,8 milljarða króna frá fjárlögum 2005 eða um 5,7%. Útgjöldin hækka því um 1,8% að raungildi frá fjárlögum miðað við verðvísitölu neysluverðs. Sé miðað við áætlaða útkomu ársins 2005 standa útgjöldin nánast í stað í krónutölu og lækka að raungildi um 2%. Lækkunin er hins vegar minni, eða tæplega 1%, séu útgjöld vegna sölu Landssímans árið 2005 ekki talin með. Helstu breytingar á milli ára er frekari efling mennta- og rannsóknarmála þar sem Íslendingar hafa skipað sér í fremstu röð, aukin framlög til málefna fatlaðra og til þróunaraðstoðar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Þá hækka barnabætur um 1,2 milljarða króna vegna hækkunar bótafjárhæða í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hækka um 1,3 milljarða króna frá fjárlögum, einkum vegna samkomulags í tekjustofnanefnd um tímabundið 700 milljóna kr. framlag í sjóðinn og vegna tengingar framlaga í sjóðinn við tekjur ríkis og sveitarfélaga. Framlög til atvinnuleysisbóta lækka á milli ára svo og stofnkostnaður og loks lækka vaxtagjöld ríkissjóðs um 2 milljarða króna frá fjárlögum 2005. Lækkun stofnkostnaðar frá fjárlögum er í samræmi við langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda á meðan stóriðju- og virkjanaframkvæmdir standa sem hæst. Áformað er að stórauka framkvæmdir í vegamálum árið 2007 og það ár hefst einnig ráðstöfun á söluandvirði Landssímans.

Lítil hækkun rekstrarútgjalda og lækkun fjárfestingaútgjalda endurspeglar aukið aðhald í útgjöldum ríkissjóðs. Alls er í frumvarpinu gert ráð fyrir aðgerðum sem skila 4 milljarða króna lækkun útgjalda frá því sem annars hefði orðið. Þar af er gert ráð fyrir tímabundinni 2 milljarða kr. lækkun framlaga til vegamála eins og á þessu ári. Við upphaf fjárlagagerðar var ráðuneytum gert að lækka útgjöld sín um 1 milljarð kr. samtals frá því sem ráð var fyrir gert í langtímaáætlun og hefur því ýmist verið mætt með því að falla frá nýjum verkefnum, lækka framlög til einstaka verkefna eða með hagræðingu í starfsemi. Loks útfærði ríkisstjórnin sérstaklega rúmlega eins milljarðs kr. lækkun útgjalda sem skiptist þannig að áformað er að lækka lyfjaútgjöld um 300 millj. kr., vaxtabætur um 250 millj. kr., fresta hafnarframkvæmdum um 200 millj. kr., fresta verkefnum Ofanflóðasjóðs um 100 millj. kr., fresta stofnkostnaði háskóla um 100 millj. kr. og fresta framkvæmdum við flugvelli um 50 millj. kr. Samtals eru því útgjöld ríkissjóðs 4 milljörðum kr. lægri en orðið hefði að óbreyttu.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum tekjum og gjöldum er tekjuafkoma ríkissjóðs áætluð tæplega 25 milljarðar króna árið 2006. Með óreglulegum tekjum er hér átt við söluhagnað af eignum og endurmat sem færist um tekjuhlið. Með óreglulegum gjöldum er átt við gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar og afskriftir skattkrafna, en þá liði má að stórum hluta rekja til fyrri ára. Tekjuafkoma ríkissjóðs á þennan mælikvarða lýsir betur reglulegri starfsemi ríkisins og áhrifum hagsveiflunnar á hana. Á næsta ári dregur úr tekjuafgangi ríkissjóðs samanborið við áætlaðan tekjuafgang þessa árs og er það í samræmi við spár fjármálaráðuneytisins um að hagvöxtur verði ekki eins mikill á næsta ári og í ár. Áfram verður þó rekin aðhaldssöm ríkisfjármálastefna á næsta ári.

Gangi áætlanir fjármálaráðuneytisins eftir verður samanlagður tekjuafgangur ríkissjóðs frá 1999 til 2006 samtals tæplega 100 milljarðar króna og samanlagður lánsfjárafgangur 150 milljarðar eins og áður kom fram. Staða ríkissjóðs hefur styrkst verulega á þessum tíma og nam uppsöfnuð fyrirframgreiðsla ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ásamt vöxtum um 80 milljörðum króna í árslok 2004. Þá verða skuldir greiddar niður um rúmlega 37 milljarða króna nettó frá árinu 1999 til 2006 á verðlagi hvers árs. Hrein staða ríkissjóðs, þ.e. skuldir að frádregnum veittum lánum, viðskiptareikningum og handbæru fé hjá Seðlabanka, lækkar að óbreyttu úr 35% af landsframleiðslu árið 1996 í 4,8% árið 2006.

Vaxtagjöld ríkissjóðs lækka áfram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eða úr 2,8% árið 1998 í 1,3% á næsta ári. Ef hlutfallið hefði haldist óbreytt væru vaxtagjöld tæplega 16 milljörðum króna hærri en áætlað er í frumvarpinu. Verða vaxtagjöld í fyrsta skipti lægri en vaxtatekjur í frumvarpinu. Hefur sú þróun ásamt öflugum hagvexti undanfarinna ára veitt ríkissjóði svigrúm til að lækka skatta á sama tíma og ráðist hefur verið í ný og aukin verkefni í mennta- og velferðarmálum, eins og áður er komið fram. Einnig hefur lækkandi skuldastaða ríkissjóðs styrkt stöðu þjóðarbúsins til að taka á sig óvænt áföll. Hefur það skilað sér í betra lánshæfismati og lægri vöxtum sem fyrirtæki og einstaklingar njóta einnig.

Herra forseti. Staða Íslands er góð borið saman við önnur ríki OECD. Samkeppnishæfni atvinnulífsins hefur batnað og við færumst sífellt ofar á þá lista sem raða ríkjum eftir samkeppnishæfni og lífskjörum almennings. Þessi staða er engin tilviljun. Undanfarin ár hefur íslenskt efnahagslíf verið í mikilli sókn sem má sjá á nær öllum sviðum þjóðlífsins. Það er vandi að stýra ríkisfjármálum við slíkar aðstæður. Margir gagnrýndu ríkisstjórnina þegar hún lækkaði tekjuskatta á fyrirtæki og hóf eina mestu einkavæðingu Íslandssögunnar með sölu á hlut ríkisins í fjármálastofnunum og nú síðast með því að færa ríkið af fjarskiptamarkaði. Einnig hafa háværar úrtöluraddir heyrst vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að nýta endurnýjanlega orkugjafa með uppbyggingu stóriðju. Loks hafa ýmsir stjórnmálamenn reynt að grafa undan fiskveiðistjórnarkerfinu sem fullyrða má að hafi fært sjávarútveginn í gegnum mikla hagræðingu þannig að hann er rekin með hagnaði og getur mætt tímabundnum erfiðleikum vegna sterks gengis krónunnar. Þessar skipulagsbreytingar hafa varðað veginn fyrir þá lífskjarabreytingu og stöðugu kaupmáttaraukningu sem landsmenn hafa notið undanfarin ár. Skipulagsbreytingarnar hafa einnig skilað sér í því að ríkissjóður getur lækkað tekjuskatta einstaklinga, fellt niður eignarskatta og hækkað barnabætur án þess að raska stöðugleika í ríkisfjármálum.

Hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár, skilvirkni hefur aukist við skipulagsbreytingar sem ég nefndi að framan og samkeppni og sveigjanleiki á þeim sviðum sem ríkið hefur dregið sig út úr með einkavæðingu hefur aukist til muna. Íslenskur vinnumarkaður hefur ávallt verið sveigjanlegur og atvinnuleysi jafnan tiltölulega lítið. Velferðarkerfið hefur ekki dregið um of úr hvata til sjálfsbjargar eins og víðar í Evrópu og lífeyriskerfið er ekki baggi á ríkissjóði eins og í mörgum vestrænum ríkjum. Alþjóðavæðing og aukin samkeppni hefur opnað nýja markaði fyrir íslensk fyrirtæki sem hafa ráðist í stórar fjárfestingar í útlöndum sem eftir hefur verið tekið. Aðgengi að erlendu fjármagni og vinnuafli hefur að sama skapi aukið sveigjanleika og afl íslensks efnahagslífs til að vaxa hratt án of mikilla aukaverkana.

Við þessar aðstæður er mikill þrýstingur á að ríkissjóður auki útgjöld sín enda eykst eftirspurn eftir þeim gæðum sem ríkið veitir aðgang að með auknum tekjum þjóðarinnar. Einnig heyrast háværar raddir um að ríkið eigi að draga verulega úr útgjöldum á öllum sviðum til að draga úr aukinni innlendri eftirspurn. Þannig eigi að lækka útgjöld helstu málaflokka svo sem heilbrigðis- og menntamála. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að miða útgjaldavöxt yfir lengra tímabil við það að heildarútgjöld vaxi minna en landsframleiðsla og brugðist við tímabundinni innlendri eftirspurn með niðurskurði á framkvæmdum. Þegar dregur úr stóriðjuframkvæmdum verða framkvæmdir ríkissjóðs auknar eins og fram hefur komið.

Ríkisstjórnin hefur einkavætt rekstur sem talið er betra að einkaaðilar sjái um og lagt áherslu á að ríkið einbeiti sér vel að þeim verkefnum sem það á að sinna. Þannig hefur verið stefnt að markvissari ríkisrekstri og þjónusta efld í mennta- og heilbrigðismálum þar sem miðað er við það besta sem þekkist annars staðar. Til að tryggja góða nýtingu opinbers fjár hefur þjónusta í þessum stóru málaflokkum í auknum mæli verið falin einstaklingum með þjónustusamningum og útboðum. Einnig hefur starfsmannastefna ríkisins stuðlað að endurmenntun og sveigjanleika til að umbuna þeim starfsmönnum sem skila góðu verki. Þannig hefur hlutverk ríkisins verið afmarkað og leitað nýrra leiða við að leysa þau verkefni á hagkvæmari hátt sem samstaða er um að ríkið veiti aðgang að. Verður því verkefni aldrei lokið enda er hagkvæmur ríkisrekstur og góð grunnþjónusta hluti af samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs.

Hlutverk ríkisins í stjórn efnahagsmála er mjög mikið og mikilvægt. Þess vegna hefur verið beitt markvissu aðhaldi í ríkisútgjöldum án þess að ganga nærri grunnþjónustu og á sama tíma dregið verulega úr opinberum framkvæmdum. Ráðstöfun á söluandvirði Landssímans er hluti af þessari stefnu þar sem því verður ekki varið fyrr en stóriðjuframkvæmdum lýkur. Þannig er fénu haldið í Seðlabanka og komið í veg fyrir að það renni óbeislað út í hagkerfið. Ríkisstjórnin axlar því ábyrgð sína í hagstjórnarmálum af fullum þunga og gerir það sem mögulegt er til að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Nauðsynlegt er að aðrir axli einnig þá ábyrgð svo sem sveitarfélög og að fjármálastofnanir gæti aðhalds í aukningu útlána við þær aðstæður að eignaverð fer hækkandi.

Í þessu sambandi er vert að minnast á að margir hafa gagnrýnt ríkissjóð fyrir að lækka tekjuskatta einstaklinga á meðan stóriðjuframkvæmdir standa yfir. Þeir sem þannig tala virðast standa í þeirri trú að fé sé betur varið hjá ríkissjóði en hjá þeim sem afla teknanna. Lækkun tekjuskatta er einmitt vel tímasett og er hugsuð sem aðgerð til að draga úr spennu á vinnumarkaði með því að hvetja til aukins vinnuframboðs á sama tíma og eftirspurn eftir vinnuafli fer vaxandi. Lokaáfangi í lækkun tekjuskatta einstaklinga er árið 2007 þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur.

Herra forseti. Að lokum vil ég undirstrika þá ríkisfjármálastefnu og meginniðurstöðu sem frumvarpið byggir á. Beitt verður áframhaldandi aðhaldi á næsta ári, en útgjöld verða aukin verulega og skattar lækkaðir markvisst þegar stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi lýkur árið 2007.

Sterk staða ríkissjóðs í alþjóðlegum samanburði hefur skilað sér í góðu lánshæfismati sem einstaklingar og fyrirtæki hafa notið góðs af. Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað verulega, eða úr 50% af landsframleiðslu árið 1996 í 19% árið 2006.

Lækkun skulda hefur skilað sér í lækkun vaxtagjalda sem eru í frumvarpinu lægri en vaxtatekjur ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur haldið fast að útgjöldum en á sama tíma staðið vörð um góða og hagkvæma þjónustu og stóreflt framlög til rannsókna og menntamála.

Síðast en ekki síst hefur ávinningi af fjármálastjórninni verið skilað til almennings með því að lækka tekjuskatta verulega, afnema eignarskatta og sérstakan tekjuskatt einstaklinga.

Tekjuafgangur ríkissjóðs verður rúmlega 14 milljarðar króna á næsta ári og skuldir ríkissjóðs verða lækkaðar um 6,6 milljarða. Stofnkostnaður ríkissjóðs verður í algeru lágmarki á næsta ári og útgjöld ríkissjóðs lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Meginniðurstaða stefnumörkunar í ríkisfjármálum er að áfram mun ríkja stöðugleiki. Hagkerfið mun að öllum líkindum ná mjúkri lendingu með um 2,5% árlegan hagvöxt árin 2007–2009. Viðskiptahalli mun þá minnka verulega og hagvöxturinn vera borinn uppi af auknum útflutningi.

Ég tel að sú stefna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og langtímaáætlun sýni sterka stöðu ríkisfjármála og staðfestu ríkisstjórnarinnar um að beita ríkisfjármálum til að hamla gegn þenslu á þessu og næsta ári. Stefna ríkisstjórnarinnar mun skila áframhaldandi bættum lífskjörum.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar. Óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina nú sem endranær og vona að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við starfsáætlun þingsins svo sem verið hefur undanfarin ár.