132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Já, það getur breyst heilmikið í forsendum hjá hv. þingmanni á stuttum tíma á milli andsvara. Núna í síðasta andsvari var stöðugleikinn horfinn út í veður og vind og hafði greinilega enginn verið, það var forsendan hjá honum í hinu fyrra andsvari. Þetta sýnir í hnotskurn hvernig málflutningur stjórnarandstöðunnar er.

Fjárlagafrumvarpið byggist auðvitað fyrst og fremst á því hverju er spáð um framtíðina, ekki bara á næsta ári heldur einnig á þar næsta ári og þar á eftir, þannig að það er ákveðin framsýni sem þar kemur fram. Þær aðgerðir sem fjárlagafrumvarpið boðar eru í samræmi við þá spá sem lögð er til grundvallar. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvernig hlutirnir þróast ef sú spá gengur eftir og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar ganga eftir.

Svo er það strax í annarri ræðu stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu, þar sem hv. þingmaður virtist til að byrja með fyrst og fremst vera að kvarta yfir því að aðhald væri ekki nógu mikið, að hann fer að kvarta yfir því að skattarnir séu ekki lækkaðir nógu mikið. Strax eru þversagnirnar og tvíhyggjan komin fram. En ég spái því að við munum heyra meira af slíku eftir því sem líður á umræðuna í dag.