132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:50]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir málefnalega spurningu um efni máls míns: Hversu mikið þarf aðhaldið að vera?

Ég held að þeir aðilar sem hafa haft umsögn í vikunni um fjárlagafrumvarpið fari nokkuð nærri um hvert aðhaldið þyrfti að vera við núverandi þensluástand. Mér sýnist að þeim beri nokkuð saman um að það þyrfti að vera tvöfalt á við það sem hér er ráðgert, þ.e. að tekjuafgangur ríkissjóðs þyrfti að vera 3% af landsframleiðslu eða nærfellt 30 milljarðar á næsta ári. Ég vil þó jafnframt lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það væri óraunsætt að ætla að ná því markmiði í fjárlögum fyrir næsta ár því að það sem við erum að fást við hér er uppsafnað aðhaldsleysi margra ára og tugmilljarðaraunaukning útgjalda ríkissjóðs á örfáum árum, stefnu- og aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar yfir langt tímabil, og því verður ekki mætt í einum fjárlögum.

Hæstv. fjármálaráðherra mun auðvitað við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið fá hér inn í umræðuna tillögur Samfylkingarinnar um breytingar á þessu frumvarpi og með hvaða hætti við sæjum og teldum eðlilegt að aðhald kæmi fram. En tvöfalt meira hefði það þurft að vera og eitthvað talsvert meira en hér er sýnt þó að ég telji ekki að raunsætt sé að ná því markmiði eins og haldið hefur verið á spilunum um langt árabil.