132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:18]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst satt best að segja óþarfi hjá hv. þingmanni að orða það sem svo að ég skelli skollaeyrum við því sem fram kemur frá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu varðandi efnahagsmálin og trúi eingöngu því sem kemur frá fjármálaráðuneytinu. Ég verð einfaldlega að vísa þeim ummælum til föðurhúsanna.

En það vill nú svo til núna að gert er ráð fyrir minni hagvexti á næsta ári en gert var ráð fyrir á þeim tíma sem hv. þingmaður er að vísa til og það liggur fyrir að það er meira aðhald í ríkisfjármálum á þessu ári en var á þeim tíma sem hv. þingmaður vísar til. Það væri út af fyrir sig hægt að nefna fleira en það eru ekki algerlega sambærilegar aðstæður í hagkerfinu núna og voru á þeim tíma.