132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:39]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér mikla gagnrýni og vitnaði til ýmissa aðila í því sambandi. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sammála því sem sumir hafa nefnt og hann vitnaði í, að ekki sé nægilegt aðhald í fjárlagafrumvarpinu? Ef hann er sammála því vildi ég gjarnan heyra hvaða tillögur hann hefur í þeim efnum.

Varðandi gengismálin þá er á sama hátt ekki nóg að gagnrýna þau. Ég spyr hv. þingmann hvaða töfralausnir hann geti bent á í því sambandi. Það er nefnilega ekki nóg að gagnrýna, hæstv. forseti, gagnrýni verður hol og klisjukennd ef engar tillögur fylgja. Það er ekki nóg að segja: Það á að gera eitthvað annað. Til að menn séu trúverðugir verða menn að koma fram með raunhæfar tillögur.