132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir þessa ágætu spurningu.

Jú, við höfum bent á það. Í þeirri tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í efnahagsmálum sem við leggjum hér fram, leggjum við til að gefin verði afdráttarlaus yfirlýsing um að ekki verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir eftir að þeim sem nú standa yfir verður lokið. Það segja allir aðilar. Meira að segja fjármálaráðherrann sagði hér áðan að sá óstöðugleiki sem nú ríkti í efnahagslífinu væri kominn til vegna stóriðjuframkvæmdanna en þegar þeim lyki tæki við nýtt tímabil og þá væri möguleiki á að hin erfiðu og þungu áhrif af stóriðjustefnunni gengju til baka og efnahagslífið jafnaði sig. Númer eitt væri að gera þetta, frú forseti.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvað við teljum aðhald. Við viljum bara allt aðra skattastefnu. Við viljum ekki að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar komi fyrst og fremst þeim til góða sem hæstar hafa tekjurnar, en síðan er persónuafslátturinn skertur eða fylgir ekki verðlagsþróun. Það er ekki stefna sem við fylgjum. Við mundum ekki láta hagræðingaraðgerðir koma niður á öryrkjum eins og verið er að gera með því að skera niður bensínstyrkinn. Það er af og frá.

Við höfum ekki stutt þessar miklu skattalækkanir og meira að segja hefur verið bent á það af hálfu Seðlabankans að við þessar aðstæður eru skattalækkanirnar sem núna er verið að framkvæma hið mesta óráð. Þetta eru svör mín, frú forseti.