132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi vilja beita auknu aðhaldi með því að falla frá því að skera niður tekjustofna ríkisins eins og tekjuskattinn sem núna kemur fyrst og fremst hátekjufólki til góða. Þessi ríkisstjórn er fyrst og fremst ríkisstjórn hátekjufólks, enda held ég að allur almenningur í landinu hafi löngu áttað sig á því. Skattalækkanirnar sem nú er verið að koma fram með, í fyrra og núna, um milljarða króna, koma fyrst og fremst hátekjufólkinu til góða. Verið er að færa byrðarnar, framlögin til samfélagsþjónustunnar, frá þeim sem hafa hæstar tekjur yfir á þá sem hafa lægri tekjur. Þetta er ekki stefna sem við styðjum, Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

Ég ítreka það, frú forseti, að í allri efnahagsumræðunni núna er bent á að stóriðjuframkvæmdirnar sem nú ganga yfir ráði för, ryðji burt öðrum atvinnugreinum. Iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sagði í útvarpi í júní að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna gætu líka verið af því góða. Hún sagði þetta við Vestfirðinga sem þá var verið að segja upp. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Auðvitað er gott að vera með fjölbreytt atvinnulíf en einhæft atvinnulíf í formi álverksmiðja getur ekki verið farsælt eins og nú stefnir í.

Þess vegna tel ég mikilvægt að nú verði lýst yfir að þegar þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú standa yfir ljúki verði ekki ráðist í nýjar stóriðjuframkvæmdir yfir eitthvert ákveðið tímabil. Það er ein forsendan fyrir því að við náum aftur stöðugleika í efnahagslífinu. Ég minni á að í tillögu okkar, þingmanna Vinstri grænna, um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika er lögð áhersla á að aðilar (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins, allir aðilar samfélagsins komi að og taki á þessum málum sameiginlega.