132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins til þess að svara nokkrum af þeim atriðum sem hv. þingmaður spurði um, ég svara öðrum síðar.

Verið er að færa afskriftir skattkrafna í fjárlögunum að því sem gerist í ríkisreikningnum. Ekki er um neinar raunverulegar breytingar í þessu skattkrafnaumhverfi að ræða. Þetta er um áætlanir sem síðan reynast ekki vera réttar, þegar menn skila ekki inn upplýsingum eða skýrslum og þar fram eftir götunum. Það er ekki nein sérstök breyting sem býr þarna að baki.

Síðan varðandi þessa 1,8 milljarða sem hann nefndi, sem var almennur samdráttur í framkvæmdum á árinu 2004. Það var ekki hugmyndin sérstaklega á þeim tíma að það sama gilti um þá og þessa 2 milljarða sem við erum að ræða um á næsta ári og á þessu ári í vegamálunum, þar sem er um beina frestun að ræða. Það sama á því ekki við þó að auðvitað séu sjálfsagt í þessum 1,8 milljarða pakka verkefni sem fyrr eða síðar munu koma til að mestu leyti.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort þenslan sé um allt land. Sjálfsagt gætir hennar mjög víða ef ekki víðast. Ég held hins vegar ekki að það sé landsvæðabundið heldur er það kannski frekar eftir geirum atvinnulífsins og því gætu áhrifin verið mismunandi eftir landsvæðum. En ég held að það standist ekki alveg að draga af því sérstakar ályktanir um vegamálin, að þess vegna ætti að fara í vegaframkvæmdir á sérstökum svæðum til þess að vega þar upp á móti. Ég held að það gangi ekki vegna þess að það er frekar þensla í verktakageiranum yfir landið allt.