132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:13]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns Guðjóns A. Kristjánssonar að hann hafði miklar áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins, hann hafði miklar áhyggjur af stöðu rækjuiðnaðarins, hann hafði miklar áhyggjur af stöðu ferðaiðnaðarins og hann hafði miklar áhyggjur yfirleitt af samkeppnisstöðu Íslands í því gengi sem við búum við, eins og hann orðaði það.

Nú vill svo til, virðulegi forseti, að ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni. Hann sagði líka að hann hefði efasemdir um þá gengisstefnu sem hér væri í gangi. En hann sagði ekkert meira. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða ráða telur hann að hægt sé að grípa til? Hvað telur hann rétt að gera í þessari stöðu, eins og hann réttilega orðaði það, þegar atvinnulífið á landsbyggðinni, sem byggir alla tilveru sína á útflutningnum, er í þeim voða sem ég veit að það er í? Hvað telur hann að eigi að gera við þessar kringumstæður?