132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stórt spurt og ekki víst að svarið verði algjörlega tæmandi þannig að ég bendi á patentlausnina. Ég held hins vegar að sú vaxtastefna sem haldið hefur verið uppi af Seðlabankanum sé ekki að vinna okkur það gagn sem að er stefnt. Ég hef ekki þá trú að við getum leyft okkur að fórna svo miklu sem við virðumst vera að gera varðandi stöðuna í sjávarútveginum með því að standa að þeirri stefnu sem Seðlabankinn hefur staðið að og ég deili ábyggilega þeim áhyggjum með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.

Þess vegna held ég að það sé verkefni okkar á þessum haustdögum, þar sem hann situr nú í fjárlaganefnd, ég á reyndar þar áheyrnarsetu, að fara í gegnum þessi mál og spyrja okkur: Getum við haldið þeirri stefnu úti sem ríkisstjórnin hefur haldið úti á liðnum missirum og virðist ætla að gera á næsta ári? Mun sjávarútvegurinn þola þessa gengisstefnu? Ég held að það verði sú spurning sem við verðum að svara nú á haustdögum og velta virkilega fyrir okkur: Er þessi stefna rétt? Ég þykist skynja á orðum hv. þingmanns, þó að hann sé í stjórnarliðinu, að hann hafi þessar sömu áhyggjur og ég, kannski meiri enda þekkir hann vel til í sjávarútveginum.