132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að íslenskur sjávarútvegur mun ekki þola þá gengisspá sem er í fjárlagafrumvarpinu. Það held ég að öllum hljóti að vera ljóst. Þess vegna erum við auðvitað sammála um að það verði að bregðast við og því segi ég að við verðum að ræða þessa stefnu. Þetta er stefna stjórnvalda, hún er í fjárlagafrumvarpinu. Við komumst ekkert hjá því að ræða hana. Við erum hérna við 1. umr. og við eigum vonandi eftir að kalla til okkar marga sérfræðinga og ræða við fulltrúa frá hinum ýmsu atvinnugreinum áður en umfjöllun okkar um fjárlögin lýkur.

En ég segi það alveg og meina að ég tel að við þolum ekki óbreytta gengisstefnu fram á næsta ár.