132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:07]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagstofa Íslands gefur út tölur um skiptingu þáttateknanna. Það er ekki ég sem er að ljúga einhverju að Alþingi, virðulegi forseti. Menn skulu bara lesa þær upplýsingar og bera saman skiptingu þáttateknanna á Íslandi miðað við aðrar þjóðir. Það er ekki uppspuni minn að hagnaður íslenskra fyrirtækja sé 10–11%. Það er ekki uppspuni minn að laun á Íslandi séu 70% af þáttatekjunum þegar þær eru 60% í Evrópu, hæst 64% í Svíþjóð. Þetta eru opinber gögn. Menn geta lesið þau.

Menn skulu gera sér grein fyrir því að ég var bara að upplýsa þá um stöðuna. Ef menn vilja ekki trúa mér er það þeirra vandamál og kannski þjóðarinnar, ef hún vill ekki trúa mér. 70% af þessu eru laun. Ég sagði það áðan, virðulegi forseti, að ég vil ekki trúa að sú gengisstefna sem boðuð er í frumvarpinu fái staðist. Ég hélt því fram að gengið yrði að fara miklu neðar til að framleiðslan gæti lifað. Hvað þýðir það á mæltu máli, virðulegi forseti? Það þýðir að lífskjör munu skerðast á Íslandi. Ég segi það hér framan í alla. Þetta er óumflýjanleg og einhver verður að segja það. Það er óumflýjanleg.

Ríkissjóður Íslands stendur miklu betur en ríkissjóður allra annarra ríkja Evrópu. Ef þróunin verður sú sem ég tala um þá munu tekjur ríkisins falla verulega. Þá verður strax skorið á einkaneysluna. Það er gott. Það er af hinu góða ef tekjurnar minnka. Ríkissjóður hefur ekkert að gera með allar þær tekjur. Ef það er til að ná jafnvægi í fjármálum, að ríkið missi af tekjuafgangi sínum, þá er það gott. Það er nauðsynlegt. En ég tel að um leið og við vitum að lífskjörin hljóta að skerðast þá sé fátt betra fyrir ríkissjóð en að geta þá komið til móts við þá tekjuskerðingu með lækkun skatta.