132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, talsmanns Sjálfstæðisflokksins í fjármálum á þinginu, var mjög athyglisverð. Sérstaklega fannst mér athyglisverð sú nafngift sem hann gaf ráðherrum sínum, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, að þeir væru eins og Münchhausen sem héldu að þeir gætu dregið sig upp á hárinu. En ég tek undir þá skoðun hans. Hv. þingmaður rakti þetta.

Ég velti fyrir mér gengismálunum. Hann hafði áhyggjur af gengismálunum í fyrra og hefur áhyggjur af þeim enn. Hverju ætlar þingmaðurinn að beita sér fyrir innan flokks síns gagnvart þessum „Münchhausenum“ sem hann nefndi hér sjálfur? Gengisspá þessa árs stóðst engan veginn. Í forsendum fjárlaga var spáð gengi upp á 120–125 en það reyndist í kringum 110, undir ráðslagi þessara Münchhausena.

Í gengisspánni fyrir næsta ár er gert ráð fyrir genginu 114,2. Telur þingmaðurinn að það náist, miðað við þau fjárlög sem nú eru sett upp? Miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, telur hann sig geta „garanterað“ þetta gagnvart atvinnulífinu, að þetta náist sem meðalgengi fyrir næsta ár? Það er þó er allt of lágt, eins og við vitum báðir. Það er talið að gengisvísitalan þurfi að vera í 130–135 til að hægt sé að búast við jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Ég hefði viljað heyra betur hvernig þingmaðurinn ætlar að bregðast við innan síns flokks.