132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fór sem mig grunaði að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefði ekki kraft til að fylgja því eftir sem hann sagði áðan. Hann treysti sér ekki til að segja: Ég trúi eða ég treysti því að það gengi sem boðað er á fjárlögum næsta árs í fjárlagafrumvarpinu standist. Enda getur hann það ekki, hann veit að efnahagsstefnan sem nú er keyrð með þeim hætti að það veit enginn hvert ber enda hefur Seðlabankinn og allir aðilar aðrir í fjármálalífinu bent á það eins og þingmaðurinn rakti í upphafi ræðu sinnar áðan.

Hitt er síðan þessi veikleiki þingmannsins að halda að launafólk hins opinbera sé vandi ríkisins. Eru laun leikskólakennara vandi ríkisins? Eru laun starfsmanna sjúkrahúsanna, sjúkraliðanna, vandi ríkisins? Er þetta fólk, sem er kannski með liðlega 100 þús. kr. á mánuði, að mynda viðskiptahallann? Hvar eru gælumennirnir, gæludýrin, þeir sem eru með yfir milljón á mánuði sem hv. þingmaður hefur búið slíkt umhverfi og boðar svo skattalækkanir í þokkabót? Það eru þeir aðilar sem eru að setja gengið um. Það eru þessir aðilar sem búa til viðskiptahallann og kaupa rándýra bíla, ekki starfsfólkið á sjúkrahúsunum. Þorir þingmaðurinn að viðurkenna það?

Ég vil benda á að við þingmenn Vinstri grænna höfum einmitt lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar eru listaðar þær aðgerðir sem við teljum að þurfi að grípa til. Þær eru vafalaust sársaukafullar fyrir einhverja, sérstaklega þá sem hafa hæstar tekjurnar. En jafnframt er lögð áhersla á að verja kjör þeirra sem lægstir eru og jafnframt tryggja atvinnulegan stöðugleika. (Forseti hringir.) Þingmaðurinn hlýtur að hafa heyrt (Forseti hringir.) orð manna af Vestfjörðum um það hvernig útflutningsgreinarnar standa þar (Forseti hringir.) í því efnahagsumhverfi sem hæstv. ríkisstjórn hefur búið til.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutíma.)