132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:35]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta innslag hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar var afskaplega merkilegt og í raun og veru betri skýring á því sem fram hafði komið hjá hv. þingmanni í ræðu hans. Hv. þingmaður hefur gefist upp á því og hefur enga trú á því að ríkisstjórnin muni taka þátt í því að reyna að verja lífskjörin. Hann telur að það sé ekki hægt að verja lífskjörin. Okkar áhyggjuefni er nákvæmlega þetta, að það verði ekki hægt að verja lífskjörin vegna ábyrgðarleysis í ríkisfjármálum. Þess vegna skiptir máli að tekið sé á ríkisfjármálunum. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar báðir aðilar á vinnumarkaði, þ.e. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, eru sammála um að forsendur kjarasamninga eru brostnar, verðlagsforsendur kjarasamninga eru brostnar. Þá er hættan sú að segja þurfi upp kjarasamningnum og semja á ný. Það væri auðvitað miklu æskilegra að hjá því væri hægt að komast og að hægt yrði að gera samninga sem giltu eitthvað fram í tímann en þeir verða þá að byggjast á einhverju trausti. Ég verð að trúa því, herra forseti, og treysta að aðilar vinnumarkaðarins, líkt og síðast þegar við stefndum í svipaða stöðu, hafi vit fyrir ríkisstjórninni, dragi hana að borðinu og hjálpi henni við að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Það er í raun og veru, sýnist mér, okkar eina von vegna þess að það virðist enga von að hafa í stjórnarliðunum. Hv. þm. Einar Oddur boðar bara lífskjaraskerðingu og ég hef ekki trú á því að nýir kjarasamningar verði reistir á þeim forsendum. Ég trúi því og treysti að aðilar vinnumarkaðarins komi hér til aðstoðar og bjargi okkur frá þeirri stefnu sem ríkisstjórnin nú fylgir og greinilega með stuðningi hv. þingmanns eins og oft áður.