132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þar kom hv. þingmaður loksins með áhyggjuefnið og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er auðvitað mikið áhyggjuefni hvernig staða útflutningsatvinnuveganna er, og þar með atvinnulífsins í heild. Það er nákvæmlega það sem minn málflutningur gekk út á. Munurinn á okkur hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og mér er sá að ég tel að við eigum í ríkisfjármálunum að taka þátt í þessu. Við eigum ekki að segja að það skipti ekki máli, eins og hv. þingmaður hefur því miður endurtekið hér, að það megi fórna afgangnum af ríkissjóði til þess að reyna að bjarga málunum fyrir horn. En þá skilur hann þetta allt eftir í fangi Seðlabankans og það gengur ekki vegna þess að þá erum við um leið að riðla afstöðu útflutningsatvinnuveganna og atvinnulífsins í heild og það gengur auðvitað ekki upp. Hv. þingmaður sagði reyndar að hann tryði ekki á grundvöll fjárlagafrumvarpsins og út af fyrir sig er hægt að taka undir það. Hann gengur ekki upp og það er auðvitað mikið áhyggjuefni. Ég ætla að vona að hv. þingmaður taki af heilindum þátt í störfum fjárlaganefndar, sem verður augljóslega að koma meira að þessu máli en oft áður og taka hugsanlega þátt í því með aðilum vinnumarkaðarins að bjarga kúrsinum. Ég sé ekki að við höfum aðra möguleika í stöðunni og því fyrr því betra. Ég vona að hv. þingmaður komi af fullri einurð til þeirra starfa.

Það var einnig mjög athyglisvert hjá hv. þingmanni að hann taldi að það sem ég nefndi í 6. gr. frumvarpsins væri í raun merkingarlaust, það skipti í raun engu máli vegna þess að ekki lægi einu sinni fyrir lagafrumvarp um framkvæmdina og þetta öðlaðist ekki gildi fyrr en það væri samþykkt. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni og það er algerlega með ólíkindum að þetta skuli ekki vera löngu búið. Sýnir því miður kæruleysið sem er allt of víða. Þessi framkvæmd er komin á það stig að hér ættu að liggja fyrir tölur og áætlun um kostnað á næsta ári. Það er eiginlega lágmarkskrafa.