132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mikil ræða og skörulega flutt. Ég ætla ekki að blanda mér í djúpar deilur um þær dýpstu röksemdir sem hv. þingmaður flutti fyrir því að fjárlagafrumvarpið væri svona gott en það er eitt sem mér leikur hugur á að spyrja hv. þingmann um. Hann hefur víða komið við á sínum skamma þingferli, sem ég vona að verði mjög langur, og alls staðar hefur hann komið fram í líki bjargvættarins. Það líkar mér vel.

Hv. þingmaður er líka formaður iðnaðarnefndar og fyrir skömmu lýsti hann því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að hún mundi koma til bjargar og endurreisa rekstur Slippstöðvarinnar á Akureyri. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann hvort hann muni þá fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og sem fulltrúi í fjárlaganefnd leggja til við 2. umr. fjárlaga það fjármagn sem nauðsynlega þarf til að leggja Slippstöðinni svo hægt sé að hefja rekstur hennar á nýjan leik.