132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er nú dálítið sama tuggan og í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra hér fyrir nokkrum dögum þar sem við tökumst á, stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, um það hvernig staðan í þjóðarbúskapnum sé í raun og veru, hvort peningastefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar sé að ganga upp eða ekki, og menn heyrðu skilaboð varaformanns fjárlaganefndar áðan. Þau voru skýr. Vandamálið liggur ekki í ríkisútgjöldunum, það er ekki vandamálið.

Hvert er vandamálið að mati hv. varaformanns fjárlaganefndar? Það er eyðslusemi og skuldasöfnun Íslendinga, annarra en ríkissjóðs, lá í orðunum. Og hættið nú að safna skuldum, góðir Íslendingar, voru skilaboð hv. þingmanns til þjóðarinnar, hættið að skuldsetja ykkur.

En ég spyr: Eru það bara einstaklingar og fyrirtæki einkaaðila úti í bæ sem eru að safna skuldum eða skuldsetja sig þessa dagana? Ekki ef marka má þetta fjárlagafrumvarp þar sem á einni af fyrstu blaðsíðum þess getur að líta heimildir fyrir ýmiss konar lántökum. Þar stingur auðvitað mest í augun lántökuheimild til handa Landsvirkjun upp á 41 milljarð kr. Tengist þetta kannski því sem við höfum verið að tala um, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það sé að hluta til stóriðjustefnan og sú gegndarlausa eyðsla og þensla sem hún kveikir í og espar upp, hvort það sé að hluta til þessari stefnu að kenna hvernig komið er í peningamálunum? Auðvitað er það svo.

Ég spyr: Hvers vegna ljá hv. stjórnarliðar þessu ekki einu sinni eyra? Þeir blása á þau rök okkar að stóriðjustefnan sé hér stór orsakavaldur og hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni fyrir tveimur dögum síðan að þetta væri nánast eingöngu olíuverðshækkunum og íbúðaverðshækkunum um að kenna.

Í sama streng tekur hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson í ræðu sinni áðan og reynir að verjast fimlega þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar reyna að reka hann á gat í þessum fræðum og telur að hér sé allt í stakasta lagi. En ég verð þá að benda hv. þingmanni á að tónninn sem er í síðustu útgáfu Peningamála Seðlabankans er auðvitað mjög geigvænlegur. Hann er mun neikvæðari en hann hefur verið undanfarið og Seðlabankinn segir það raunar berum orðum, svo að ég fái að vitna í kafla um strangt peningalegt aðhald þar sem Seðlabanki Íslands segir í Peningamálum, 3. hefti 2005, með leyfi forseta:

„Ójafnvægið er jafnvel meira nú:“ — en á árunum 2001–2002 — „viðskiptahalli meiri, raungengi hærra, íbúðaverð lengra yfir langtímajafnvægi og skuldsetning heimila, fyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild töluvert meiri.“

Sem sagt, vandamálin sem við erum að glíma við núna eru töluvert meiri en vandamálin í dýfunni á milli áranna 1999 og 2000. Þetta er mat Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn er greinilega hræddur við þessa stöðu því að hann tekur það fram í nýjasta hefti Peningamála að á næstu árum verði aðstæður í þjóðarbúskapnum óvenju erfiðar og það virðist vera að Seðlabankinn sé hræddur við að peningastefnan standist ekki þessa prófraun, þessi vandamál sem nú er við að glíma, og ótti hans byggir á því að verðbólgan komi ekki til með að víkja umtalsvert nema í skamma hríð frá verðbólgumarkmiðunum sem honum ber lögum samkvæmt að halda. Bankinn telur að takist ekki að halda sig innan verðbólgumarkmiðanna á næstu árum, á næstu missirum, sé hætt við að trúverðugleiki Seðlabankans og peningastefnunnar sem heildar bíði skaða af og það getur auðvitað verið erfitt að endurheimta þann skaða, segir Seðlabankinn.

Ég fæ því ekki betur séð en að þær áhyggjur sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið í ljós séu studdar af áhyggjum Seðlabankans.

Við nefnum stóriðjustefnuna. Þingmenn vinstri grænna og hv. þingmaður Jón Bjarnason, talsmaður okkar í fjárlaganefnd, gerði í ræðu sinni að hluta til grein fyrir þeim tillögum sem við höfum lagt til málanna, en þær er að finna á sérstöku þingmáli sem er 5. mál þessa löggjafarþings, þar sem við leggjum til í einum sex tölusettum liðum ákveðnar aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þingmálið verður auðvitað rætt frekar innan fárra daga, trúi ég, hér í þinginu og ég fer svo sem ekkert ítarlega í það núna. En eitt af því sem við erum þó að benda á í því er að stóriðjustefnan og afleiðingar hennar sé orsakavaldur í þessu ástandi og við styðjum það ákveðnum rökum sem koma fram í greinargerð með málinu.

Hæstv. fjármálaráðherra vék að stóriðjuframkvæmdunum örfáum orðum í inngangsræðu sinni fyrr í dag. Hann telur að ríkisstjórnin sé að fara skynsamlega að ráði sínu þar sem er frestað allri ráðstöfun söluandvirðis Landssímans þangað til stóriðjuframkvæmdum lýkur. Gott og vel, hvenær lýkur þeim? Að öllum líkindum út frá mati hæstv. fjármálaráðherra um 2007. En hvað þýða þá þessi orð sem hér standa í haustskýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn?

Á bls. 6 getur að líta eftirfarandi um stóriðjuframkvæmdirnar, með leyfi forseta:

„Formleg ákvörðun liggur ekki fyrir um frekari stóriðjuframkvæmdir og því ekki gert ráð fyrir þeim í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Þar á meðal er ekki reiknað með seinni áfanga stækkunar Norðuráls en það yki 40 þúsund tonna ársframleiðslugetu við núverandi stækkun um 130 þúsund tonn en líkur á þeirri framkvæmd eru taldar góðar.“

Hvenær er gert ráð fyrir þeim framkvæmdum, 2005, 2006, 2007? Hvað er ríkisstjórnin að reyna að segja? Eru menn að tala austur og vestur? Ætla menn í áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir eða ekki? Ætla menn að ljúka stóriðjuframkvæmdum 2007 eða ekki? Það liggur ekki fyrir. Skilaboðin eru afar loðin og sannarlega ekki vanþörf á að við fáum skýringar frá stjórnarherrunum um þessi mál.

En ríkisfjármálin eru ekki vandamálið, sagði hv. varaformaður fjárlaganefndar. Þið sem eruð þarna úti í samfélaginu lifið um efni fram, þið eruð vandamálið. Þessu mótmæli ég, virðulegi forseti, því að vandamálið liggur hér á stjórnarheimilinu og hvergi annars staðar. Þegar menn berja sér á brjóst og fjalla um ábyrga stjórn ríkisfjármála þá nægir að lesa Peningamál Seðlabankans til þess að sjá að það er ansi holur hljómur í málflutningi ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar.

Mig langar, virðulegi forseti, að fara örfáum orðum um þau mál sem lúta að þeim nefndum sem ég starfa í á vegum Alþingis. Þar er m.a. um að ræða menntamálanefnd og ég vil nota tækifærið og fagna hækkuðum framlögum til háskólastigsins en þar getur að líta umtalsverða hækkun sem fyrst og fremst er ætluð til rannsókna eða rannsóknaþáttarins í háskólunum. Því ber auðvitað að fagna en þó er líka hægt að gagnrýna það að hluta því að áherslan í þessari hækkun er auðvitað á dekurbörn hæstv. menntamálaráðherra, þ.e. einkaskólana á háskólastiginu sem geta að mörgu leyti ákveðið sjálfir hvað þeir taka inn marga nemendur og fá þannig framlög úr ríkissjóði sem samsvara nemendafjölda þeirra á sama tíma og einn af okkar opinberu háskólum, Kennaraháskóli Íslands, þarf ár eftir ár að hafna um þúsund umsækjendum með góð stúdentspróf.

Ég sé, hæstv. forseti, að ég kemst ekki lengra í þessari ræðu minni, frekari umfjöllun um hækkun til rannsóknaþáttar háskólanna þarf ég að láta bíða til síðari ræðu minnar en það eru ákveðnir þættir, sérstaklega er varðar Háskóla Íslands, sem þarf aðeins að gefa gaum að.