132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil svara örfáum atriðum sem komu fram hjá hv. þingmanni. Það er auðvitað góðra gjalda vert hjá Frjálslynda flokknum að hvetja þjóðina til sparnaðar. Ríkisstjórnin tekur undir það með Frjálslynda flokknum og er reyndar að því í fjárlagafrumvarpinu. Eins og komið hefur fram eru útgjöldin að raungildi miðað við það sem stefnir í á þessu ári um 1% minni.

Þingmaðurinn spurði um Fiskistofu. Það er auðvitað rétt að það eru auknar fjárveitingar þangað vegna aukinna umsvifa stofnunarinnar og eins vegna þess að verið er að flytja stofnunina út á land og setja upp ný útibú víða um landið. Hins vegar verður það auðvitað að viðurkennast að flutningur höfuðstöðvanna til Hafnarfjarðar hefur ekkert nema kostnað í för með sér því þar er um dýrara húsnæði að ræða en húsnæðið sem Fiskistofu var sagt upp í. Auglýst var eftir húsnæði og þetta var það besta sem út úr þeirri auglýsingu kom og síðan fylgir því auðvitað alltaf kostnaður að flytja. Það var ekki verið að flytja vegna þess að það væri einhver tilgangur í því í sjálfu sér. Það var einfaldlega flutt vegna þess að Fiskistofu var sagt upp því leiguhúsnæði sem hún var í.

Loks varðandi spurningar um framhaldsskólana. Þeir framhaldsskólar sem hv. þingmaður tiltók fá lægri fjárframlög samkvæmt frumvarpinu vegna þess að gert er ráð fyrir því að færri nemendur verði þar á næsta ári en eru á yfirstandandi ári. Það er út af fyrir sig eðlilegt að fjárframlög minnki þegar nemendum fækkar. Hvers vegna þeim fækkar get ég ekki svarað. Hins vegar er augljóslega verið að ýta undir tækninám í landinu. Verið er að styðja við sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík og auka þar fjárframlög og það mun skila sér á mjög jákvæðan hátt í tækni- og iðnmenntun landsins.