132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er alveg hægt að bera saman uppgjör fjárlaganna og uppgjör ríkisreiknings því inni í ríkisreikningnum eru liðir sem ekki endilega koma inn í fjárlögin vegna þess að þeir tilheyra ekki útgjöldum þess árs sem fjárlögin fjalla um. Það er því ekki hægt að segja til um það fyrir fram hvort það verði minni eða meiri munur á uppgjörinu. Maður veit það bara ekki, eins og t.d. með skattakröfur sem koma inn. Eins er með lífeyrisgreiðslur. Ef svigrúm er hjá ríkissjóði til að greiða inn á lífeyrissjóðina vænti ég þess að það verði notað en það mun þá koma sem útgjöld í ríkisreikningnum en þau tilheyra ekki endilega því ári sem greiðslurnar fara fram á.

Þetta var reyndar skýrt mjög skilmerkilega í fjárlagaræðu fjármálaráðherra á síðasta ári þannig að ég á erfitt með að útskýra það betur í stuttu andsvari. Ef hv. þingmaður vill fá nákvæmari skýringar þá vísa ég honum á að fletta upp í tölvunni ræðu fjármálaráðherra frá í fyrra. Þar er þetta skýrt mjög skilmerkilega.