132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:50]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég bjóst við að hv. þingmenn stjórnarliðsins tækju betur þeim sparnaðartillögum sem fram kæmu en raun ber vitni, en ég vona að hv. þm. Bjarni Benediktsson átti sig á því að margt smátt gerir stórt. Ég vil snúa þessari spurningu við: Hvers vegna er hann ásamt stjórnarliðunum að klípa ökutækjastyrkinn af öryrkjum ef þessar litlu upphæðir skipta engu máli?

Við erum að tala um lægri upphæð en verið er að auka til utanríkisþjónustunnar og mér finnst málflutningur eins og borinn er hér á borð ekki boðlegur. Að segja að það skipti engu máli þegar verið er að setja fram málefnalegar tillögur og hvetja til sparnaðar. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann: Tekur hann ekki undir með okkur í Frjálslynda flokknum að það sé ráðlegt að beina þeim tilmælum til fólksins í landinu að spara? Besta leiðin til þess er að greiða niður skuldir. Það mun slá á þensluna. Eigum við ekki að sameinast um að flytja jákvæð skilaboð út í þjóðfélagið?