132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:55]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef jafnmikla trú á því og hv. þingmaður að hægt sé að ná fram auknu aðhaldi og sparnaði í ríkisrekstrinum. Ég efast ekki um það eina mínútu. En ég held að við ættum þá að einbeita okkur að stóru málaflokkunum frekar en að vera að tala um æðardúnsfrumvarpið í samhengi við fjárlög ársins 2006.

Ég vona að hv. þingmaður hafi hlýtt á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þar sem hann dró fram hvaða stærðir er um að ræða hérna. Hverjir eru áhrifavaldarnir í ríkisfjármálunum? Það er ekki æðardúnsfrumvarpið, hv. þingmaður, það eru liðir eins og fjöldi ríkisstarfsmanna og launaþróun hjá opinberum starfsmönnum. Það eru liðir sem skipta verulegu máli þegar kemur að ríkisfjármálum, ekki æðardúnsfrumvarpið.