132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var falleg ræða hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Hæstv. ríkisstjórn er einmitt að mæta því fólki sem henni var svo tíðrætt um í ræðu sinni. Ungt fólk með mikla greiðslubyrði, sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og stofna fjölskyldu, er fólk sem er oftar en ekki að koma úr dýru námi. Við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það, hún sem fyrrverandi forustumaður námsmanna innan Háskóla Íslands. Þetta fólk er að koma úr dýru námi, það er með gríðarlega háa greiðslubyrði en það er líka með há laun. Það er líka með há laun vegna þess að það hefur haft fyrir því að afla sér menntunar við hæfi.

Nú ætlar ríkisstjórnin að lækka tekjuskattsprósentuna um 4% á þennan hóp sem er með gríðarlega miklar tekjur. Þetta fólk fær engar vaxtabætur eins og hv. þingmaður gaf í skyn. Þetta fólk fær litlar barnabætur eins og hv. þingmaður vill gefa í skyn. Svo töluðu aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar um það hér í dag að ekki hefði átt að fara í þessa lækkun á tekjuskattsprósentunni.

Ég vil fá það á hreint, er hv. þingmaður sammála því sem ríkisstjórnin er að gera, að lækka tekjuskattsprósentuna um 4% eða ekki? Það kemur ungu fólki sem er að koma úr kostnaðarsömu námi til góða, sem er með há laun og hefur haft mikið fyrir því að afla sér þeirra tekna. Er hún sammála því eða ekki að lækka tekjuskattsprósentuna um 4% á þennan þjóðfélagshóp? Þannig talaði hv. þingmaður fyrir síðustu kosningar. Það er ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum.

Unga fólkið á að stofna samtök, sagði hv. þingmaður. Ég var á fundi á Bifröst fyrir ári þar sem voru miklar umræður um hvernig sá hópur fer út úr jaðarsköttunum í samfélaginu. Við kynntum þessar skattalækkanir og það var hrópað húrra þar. Nú viljum við fá að heyra hver er stefna Samfylkingarinnar gagnvart ungu fólki.